145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns um heiti embættisins og laganna þá var sú umræða ekki hávær innan nefndarinnar. Ég held að innan nefndarinnar hafi menn almennt verið þeirrar skoðunar að ekki væri tilefni til að breyta þessu. Nú held ég að þetta sé frekar smekksatriði en að það hafi djúpa merkingu. Það hefði verið hægt að velja þá leið sem hv. þingmaður nefndi, en ég fyrir mitt leyti sé ekki tilefni til þeirrar breytingar.

Varðandi hins vegar hæfisskilyrðin þá held ég að af hálfu nefndarmanna hafi hugsunin verið einmitt sú að víkka þetta út þannig að þegar vísað er til þess að sá sem valinn er til starfans hafi þekkingu á reikningsskilum þá beri að túlka það vítt, það verði litið til þess hvort viðkomandi hafi þekkingu á reikningsskilum, enda er það mikilvægur þáttur í starfsemi ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðunar. Vilji nefndarinnar er auðvitað ljós þegar horft er til þess að löggildingin er felld út og þegar aðrir þættir eins og þekking á ríkisrekstri og stjórnunarreynsla eru teknir inn í er hugsunin sú að það séu fleiri þættir en nákvæmlega bara þekking á endurskoðun og reikningsskilum í þrengri merkingum sem menn eru að leita að.