145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru hárréttar ábendingar hjá hv. þingmanni um þetta atriði. Ég held að það sé sameiginlegur skilningur okkar allra að það þurfi mjög mikið að koma til til að ríkisendurskoðandi hafni því að vinna skýrslu sem beðið er um af hálfu þingsins. Ég mundi halda að þær tvær leiðir sem lagðar eru til í breytingartillögum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þ.e. annars vegar að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari fram á skýrslu eða hins vegar níu þingmenn að fengnu samþykki þingsins í heild með atkvæðagreiðslu í þingsal, eigi að fela í sér að hægt sé að sía úr tilefnislausar eða órökstuddar beiðnir. Þannig að við getum sagt sem svo að alvörubeiðnum frá þinginu hlýtur ríkisendurskoðandi að svara.

Sjálfstæðið er hins vegar líka mikilvægt. Það er mikilvægt að ríkisendurskoðandi geti metið það út frá sínu verklagi og þeim lagaákvæðum sem um embættið og stofnunina gilda hvernig hann fer í verkefnið. Þarna er auðvitað ákveðinn línudans, annars vegar er ríkisendurskoðandi sérstakur trúnaðarmaður þingsins og vinnur á þess vegum og í þess umboði, en á hinn bóginn held ég að við viljum heldur ekki sjá að þingið eða eftir atvikum meiri hluti þings eða meiri hluti í einhverjum tilteknum nefndum gefi ríkisendurskoðanda fyrirmæli um hvernig hann fer í verkin. Þarna er ákveðinn línudans og reynir á dómgreind beggja megin, bæði hjá þeim sem biður um skýrslurnar og hjá ríkisendurskoðanda þegar hann metur hvernig hann gengur í verkin.