145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nefndarálitið endurspeglar í sjálfu sér að það voru mörg álitamál rædd í starfi nefndarinnar sem leiddi ekki endilega til breytingartillagna. En varðandi nokkur atriði þótti okkur engu að síður mikilvægt að gera grein fyrir sjónarmiðum sem upp komu. Ég vil líka leggja áherslu á að vegna stöðu Ríkisendurskoðunar og eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram þá fannst okkur í nefndinni afar mikilvægt að tala okkur niður á sameiginlega niðurstöðu frekar en að útkljá með afli atkvæða einhver álitamál í því sambandi, enda fór það svo að allir nefndarmenn treystu sér til að standa að nefndarálitinu jafnvel þótt á leiðinni, ef við getum orðað það svo, væru skoðanir skiptar um ýmis mál.

Varðandi örfá atriði sem hv. þingmaður nefndi þá vildi ég segja varðandi starfskjörin og okkar niðurstöðu að við horfðum til þess að almenna reglan er sú að kjararáð taki ákvarðanir um laun og starfskjör æðstu embættismanna á öllum sviðum ríkisvaldsins, dómsvalds, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og okkur þótti í rauninni fara betur á því en að tengja þetta með óbeinum hætti við tiltekinn hóp embættismanna sem lúta engu að síður ákvörðun kjararáðs, af því að kjararáð ákveður laun hæstaréttardómara. Okkur þótti þetta vera svolítil krókaleið.

Varðandi önnur atriði þá geri ég ráð fyrir að koma inn á þau í síðara andsvari.