145. löggjafarþing — 112. fundur,  18. maí 2016.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[18:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það sem hann endaði á, ég tek alveg undir það, auðvitað getur það verið hamlandi og skýrslurnar eru auðvitað ótrúlega margar um allar ríkisstofnanir og rekstur ríkisins, þannig að það er kannski óyfirstíganlegt verkefni í sjálfu sér að taka formlega fyrir hverja einustu skýrslu á fundi með ríkisendurskoðanda. Það er kannski ekki hægt að gera það svo vel sé. En þá er auðvitað spurning hvort eitthvað sé undanskilið. Eins og ég sagði áðan þá gæti það verið í praxís þannig að einhverju leyti að nefndin velji að taka alltaf einhverja tiltekna þætti fyrir og funda um það áður en skýrslan birtist. Það gæti alveg verið ein leið, hvort sem það er eitthvað sem varðar fjármálin eða annað, þótt flestir fletir snerti nú fjármál ríkisins. Það gæti verið möguleiki á því, held ég. Ég skil auðvitað að það er kannski fullflókið að ætla að gera það þannig. Eins og hér var einmitt rakið þá eru miklu færri skýrslur í Noregi.

En eins og ég sagði áðan þá er ég ánægð með frumvarpið að flestöllu leyti þannig að ég á ekki von á öðru en ég styðji það hér í þinginu.