145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er risavaxið mál sem við ræðum hér á föstudagseftirmiðdegi og lýtur að því hvernig eigi að fara með aflandskrónurnar svokölluðu. Hér er lögð til ákveðin leið, þ.e. að undirbúið verði útboð á aflandskrónum, og að þeir sem ekki nýti sér þá leið verði að sæta sérstökum takmörkunum eins og hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir í ræðu sinni áðan og ég ætla svo sem ekki að endurtaka.

Það þarf ekki að rifja upp þau höft sem við höfum búið við hér í samfélaginu allt frá hruninu 2008 sem voru nauðsynleg aðgerð á sínum tíma. Yfir það er líka ágætlega farið, ekki síst í ágætisyfirliti á síðu 14 í greinargerðinni. Höftin veittu íslensku efnahagslífi mikilvægt skjól á mjög erfiðum tímum. Því ber ekki að gleyma, eins og hér er nefnt, að frá því að slitabú föllnu bankanna fóru undir höftin var það gríðarlega mikilvæg aðgerð á þeirri vegferð að losa höft.

Það er líka ágætlega farið yfir það sem við höfum sammælst um í þingsal, að höft til lengri tíma eru ekki æskilegt ástand og skipta sérstaklega máli fyrir fjárfestingarmöguleika, ekki síst innlendra fyrirtækja, innlendra lífeyrissjóða og annarra aðila, og svo að sjálfsögðu að hafa áhrif á þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi. Gott og vel, markmiðin liggja fyrir.

Ég ætla hins vegar að segja í upphafi að ég hefði að sjálfsögðu kosið allt frá byrjun þessa kjörtímabils, og hef margoft rætt það hér, að stjórnvöld hefðu haft miklu meira samráð en haft hefur verið um alla pósta á þessari vegferð. Það sagði ég þegar hér voru lögð fram frumvörp um stöðugleikaskatt og stöðugleikaframlög á sínum tíma.

Ég endurtek hér að þetta mál kemur okkur fyrir sjónir í samráðsnefnd um losun hafta þar sem fundur var haldinn í gær og að sjálfsögðu hefði ég kosið að haft hefði verið aukið þverpólitískt samráð um þessi mál því að þetta er risavaxið hagsmunamál fyrir okkur öll, allt samfélagið. Það liggur því algjörlega fyrir að hv. efnahags- og viðskiptanefnd mun þurfa að fara mjög vel yfir málið því að hér eru mjög miklir hagsmunir undir.

Hér kemur fram að um er að ræða af því sem afmarka má sem aflandskrónur 319 milljarða. Þetta er lægra hlutfall af landsframleiðslunni en var, fór hæst að mig minnir í 40%, hefur farið niður með batnandi efnahag en eigi að síður er það núna í u.þ.b. 15%. Það hefur gríðarleg áhrif hvernig til tekst.

Spurningin sem við sem sæti eigum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hljótum að spyrja okkur er: Er þessi umbúnaður skotheldur til þess að markmiðið náist? Mun markmiðið nást með þeirri aðferðafræði sem hér er lögð til? Hverjar geta afleiðingarnar orðið ef þeir aðilar sem eiga þessar krónur munu ekki nýta sér þær leiðir sem hér eru lagðar til? Gætum við verið að horfa framan í þann veruleika að Ísland verði áfram haftaríki þrátt fyrir að við samþykkjum þennan umbúnað? Hvaða áhrif mun það hafa á stöðu mála hér á landi fram í tímann?

Þetta eru stóru spurningarnar sem við þurfum að spyrja okkur, hvort við teljum að umbúnaðurinn standist þannig að á honum finnist í raun og veru engar misfellur, hvort umbúnaðurinn muni skila þeim markmiðum sem til er ætlast og hvað það þýðir ef þessir aðilar munu ekki nýta sér þá leið að fara út í gegnum gjaldeyrisuppboð? Hvað þarf til að kallast haftaríki, hversu háar fjárhæðir þurfa þá að vera eftir? Og hvaða áhrif mun það hafa á íslenskt atvinnulíf og þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi?

Þetta eru spurningar sem við munum setjast yfir. Af því að ég nefndi að ég hefði kosið meira samráð um þessi mál liggur fyrir að verkefni nefndarinnar verður að fara yfir allar þessar spurningar núna um helgina.

Það er líka mikilvægt að í þessu frumvarpi er talsvert rætt um raunverulega eigendur aflandskrónanna. Ég hef gert það að umtalsefni í þinginu að það sé mikilvægt að raunverulegt eignarhald liggi fyrir áður en til gjaldeyrisútboðs kemur. Mér finnst mjög mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari yfir það hvort raunverulegt eignarhald liggi fyrir og hvort Seðlabankinn hafi upplýsingar um það í ljósi þeirrar umræðu sem hefur gengið í gegnum undanfarnar vikur á Alþingi um allar þær fléttur sem við höfum séð í eignarhaldi á fyrirtækjum þar sem erfitt hefur reynst að rekja eignarhald. Hér er rætt talsvert um raunverulega eigendur, en þá er mikilvægt að átta sig á því að við viljum vita hverjir eiga þessar aflandskrónur, hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra. Við viljum hafa fullvissu fyrir því að Seðlabankinn hafi það yfirlit og geti farið yfir það með efnahags- og viðskiptanefnd.

Þegar um svona stóra hagsmuni er að ræða er það skylda okkar, lýðræðislega kjörinna fulltrúa, að sem mest gagnsæi ríki um aðgerðina. Þó að hún varði eðli máls samkvæmt mikla viðskiptahagsmuni alls kyns einstaklinga varðar hún fyrst og fremst hagsmuni þjóðarbúsins. Það skiptir miklu máli að við sem hér erum, kjörnir fulltrúar almennings, úr ólíkum flokkum, ólíkum áttum, getum með sanni sagt að upplýsingar liggi fyrir þannig að við getum treyst því að þarna sé vel búið um málin og að almenningur í landinu geti treyst því að þarna sé eins vel að verki staðið og hugsast getur. Í þriðja sinn kem ég þá aftur að því að ég hefði talið betra að meira samráð hefði verið haft í aðdraganda þessa ferlis.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að halda hér mjög langa ræðu um málið. Nú kemur að því að við fáum að fara yfir þetta mál með aðilum. Efnahags- og viðskiptanefnd hyggst funda strax að loknum þessum þingfundi. Það skiptir máli að vanda til verka. Þegar undir eru 319 milljarðar, 15% af landsframleiðslunni ef ég man réttar tölur, skiptir miklu máli að okkur takist vel til og að almenningur geti treyst því að við höfum skoðað allar upplýsingar þannig að við höfum traust á þessari aðgerð. Ég vona að það verði niðurstaðan af þessu ferli.