145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[17:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Eins og fram hefur komið í ræðum á undan er þetta risavaxið mál. Þó að efnahags- og viðskiptanefnd hafi fengið lauslega kynningu á því í morgun er ógjörningur að fjalla núna um það af nokkru viti efnislega. Frumvarp það sem hérna liggur fyrir sýnist mér á mannamáli fjalla um hvernig á að fara með þær aflandskrónur sem eftir verða þegar gjaldeyrisútboði er lokið og það á að fara fram um miðjan júní. Frumvarpið fjallar sem sagt um það.

Það má vel taka undir að betra hefði verið að hafa meira samráð þannig að við værum betur undirbúin til að tala um þetta og takast á við það núna. Auðvitað höfum við fullan skilning á því að hér þarf flýtimeðferð. Við munum ekki bregðast í því á einn eða neinn hátt. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að við þurfum auðvitað að fá sérfræðinga og gesti og fara ítarlega yfir öll þessi atriði. Nokkur þeirra hafa verið nefnd hér á undan og óþarfi að endurtaka þau.

Þetta er risastórt verkefni. Því miður hefur það verið þannig og var þannig um stóra skrefið sem var tekið hér á undan, um stöðugleikaskattinn sem breyttist svo í stöðugleikanauðasamninga og stöðugleikaframlög, að eftir því sem á málsmeðferð þess máls leið treystum við í stjórnarandstöðunni okkur því miður ekki til að greiða atkvæði með þeim ráðstöfunum. Við hefðum samt verið mjög tilbúin að takast sameiginlega á við það allt saman, a.m.k. get ég talað fyrir mig og minn flokk. Ég vona að ekkert slíkt komi upp í meðferð þessa máls, ég vona að við getum öll staðið saman að því að afgreiða það. Um það treysti ég mér ekki til að segja núna því að þetta eigum við allt saman eftir að skoða og taka síðan ákvörðun fyrir opnun markaða á mánudag um hvernig við stöndum að málinu.

Málið er risavaxið og yfir helgina eigum við mikla vinnu fyrir höndum við að skoða þetta allt saman. Ég sé ekki ástæðu til að tefja þingheim lengur yfir því og lýk því máli mínu hér.