145. löggjafarþing — 113. fundur,  20. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann tón sem er sleginn hér, að í þinginu og í viðkomandi nefnd verði allt gert til þess að kalla eftir sjónarmiðum um þá leið sem hér er boðuð og flýta fyrir meðferð málsins sem ég hef fært rök fyrir að skipti miklu máli. Þetta mál hefur verið í undirbúningi svo árum skiptir í raun og veru. Síðasta ár hefur mjög mikil vinna farið í þennan undirbúning og ég tel að við höfum í þessu frumvarpi náð að setja saman leið fyrir þennan þátt haftamálsins sem er líkleg til að skila okkur þeim árangri sem eftir er sóst. Hér skiptir mestu að við erum að búa í haginn fyrir frekara afnám hafta fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.

Þrátt fyrir að nokkur árangur hafi náðst á undanförnum árum við að minnka þennan þátt vandans, þessa snjóhengju, sitja enn eftir um 320 milljarðar. Í fyrri útboðum sem haldin hafa verið hafa rétt tæplega 160 milljarðar leitað út í 21 útboði. Þær aðgerðir hafa svo sem skilað árangri en vandinn er samt sem áður enn þessi.

Í umræðunni hefur komið fram hversu hátt hlutfall þetta er af landsframleiðslu. Það er öllum ljóst að það er ekki boðlegt gagnvart almenningi í landinu og ekki verjandi efnahagslega að taka áhættuna af því að svona stór vandi valdi mikilli röskun í efnahagsmálum með því hreinlega að hleypa honum út um gjaldeyrismarkaðinn yfir nótt.

Ég ítreka það sem áður hefur komið fram, þetta skref er liður í heildstæðri áætlun sem við höfum áður kynnt. Hér er verið að afmarka þennan þátt málsins til að búa í haginn fyrir næstu skref sem verða stigin síðar á þessu ári. Þetta og fyrri útboð eru aðgerðir sem er beint að þessum þætti vandans. Við getum auðvitað aldrei tryggt fyrir fram að vandinn verði að fullu leystur með fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði enda er þátttaka í útboðinu alveg valfrjáls. Eins og áður segir er hins vegar brýnt fyrir frekari losun fjármagnshafta að stíga þetta skref og við viljum ekki að þau skref tefjist lengur en orðið er. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að í framhaldinu verði hægt að stíga þau skref hratt og örugglega.

Í greinargerð með frumvarpinu er farið inn á fjölmörg atriði sem snúa að efnahagslegu mikilvægi þessara mála. Talsverð vinna hefur verið lögð í greinargerðina og þetta eru atriði sem menn þekkja, mikilvægi þess að lífeyrissjóðir komist að nýju til útlanda til að dreifa betur eignasafni sínu en síðast en ekki síst að við komumst aftur í það sem við mundum kalla eðlilegar, heilbrigðar aðstæður hvað varðar fjármagnshreyfingar almennt.

Ég vil aftur þakka fyrir góðar undirtektir í þingsal og óska nefndinni allra heilla í störfum sem nú taka við í nefnd og áfram stendur öll möguleg aðstoð úr stjórnkerfinu til boða til að skýra einstaka efnisþætti frekar.