145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög flókið mál, ég tala nú ekki um fyrir okkur sem ekki sitjum í fagnefndinni sem um það fjallar. Það er líka mjög mikilvægt. Mér finnst í því ljósi nokkuð vasklega gert hjá hv. þingmanni og framsögumanni að hlaupa yfir öll helstu rökin sem eru fyrir því að þetta frumvarp samræmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum og vísa einungis í nefndarálitið. Ég var mættur hingað töluvert fyrir fund til þess einmitt að lesa nefndarálitið en það var ekki komið þegar hálf mínúta var í að fundur hæfist. Ég sé þó í gegnum fingur við hv. þingmann varðandi það mál.

Það sem mér finnst skipta máli að komi fram af minni hálfu er að ég styð frumvarpið. Ég tel að það fari langa leið til þess að ná þeim markmiðum sem það á að ná, en auðvitað er ég svolítið óttasleginn yfir því hvort umbúnaðurinn sé réttur. Það skiptir mig miklu máli að hafa fulla vissu fyrir því að það brjóti ekki í bága við ýmsar greinar stjórnarskrárinnar.

Það þarf t.d. að uppfylla mannréttindasáttmála Evrópu og sömuleiðis ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði. Þegar maður les frumvarpið og nefndarálitið kemur í ljós að jafnræðiskrafan er uppfyllt með því að gengið er út frá því að í hópi þeirra sem hafa erlendar aflandskrónueignir og eru erlendir lögaðilar séu Íslendingar. Ef til dóms kemur hlýtur það að styrkja stöðu okkar að geta sýnt fram á það og þess vegna finnst mér hálfaumingjalegt í þessu frumvarpi að ekki skuli vera lögð sérstök áhersla á að það verði upplýst hvaða Íslendingar það eru sem eiga þessar eignir.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að aukin áhersla á það mundi styrkja stöðu Íslands ef við lentum í einhvers konar vafstri (Forseti hringir.) fyrir dómstólum.