145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég tel að það skipti ekki höfuðmáli ef við lendum fyrir dómstólum með þetta mál af því að hv. þingmaður talaði um mismunun og lagði þar áherslu á „erlenda aðila“. Við vitum ekki hverjir eru raunverulegir eigendur að öllum þessum aflandskrónum. Það er kannski ekki höfuðatriðið. Höfuðatriðið er eignirnar sem eru kvikar og munu leita út verði höftunum aflétt. Þess vegna tel ég ekki í því neina mismunun sem brjóti í bága við alþjóðlega sáttmála eða stjórnarskrána vegna þess að þetta gildir um allar þær krónur sem eru vel skilgreindar. Þess vegna er ég áhyggjulaus í þessu máli, þetta er almenn aðgerð fyrir alla sem eru með þessar skilgreindu eignir. Ég hefði miklu meiri áhyggjur ef þetta snerist bara um það hvernig menn væru á litinn eða af hvaða þjóðerni þeir væru. Það er ekki um það að ræða. Markmiðið er alveg skýrt, hagsmunirnir eru skýrir, frumvarpið er skýrt með skýrar skilgreiningar um hvað um er að ræða og ekki er gengið lengra en nauðsynlegt er. Þess vegna er ég áhyggjulaus og tel að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af dómsmálum út af þessu máli.