145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem sú sem hér stendur skrifar undir og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd, tekur undir það. Kannski lýsir umræðan hér að framan þeirri stöðu sem við þingmenn erum í. Frumvarpið var lagt fram föstudaginn 20. maí af hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra. Þetta er flókið og tæknilegt mál og snýst um það hvernig við meðhöndlum krónueignir sem á að fara með með sérstökum takmörkunum, svokallaðar aflandskrónueignir. Þetta er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Frumvarpið var fyrst kynnt fulltrúum annarra flokka en stjórnarflokkanna daginn áður, fimmtudaginn 19. maí, og þá var það kynnt fyrir svokallaðri, og ég meina svokallaðri, samráðsnefnd um losun hafta. Af hverju segi ég svokallaðri? Jú, það er ekki hægt að halda því fram að nefndin hafi verið höfð með í ráðum um gerð þessa frumvarps. Það er ekki hægt að halda því fram að gefinn hafi verið kostur á að fara yfir hugsanlegar aðrar leiðir sem bent hefur verið á við það að losa aflandskrónueignir út úr hagkerfinu. Því má segja að það einkenni þessa aðgerð, eins og aðrar aðgerðir núverandi hæstv. ríkisstjórnar í haftalosunarmálum, að samráð hefur verið lítið sem ekkert, stjórnarandstöðunni er stillt upp frammi fyrir orðnum hlut — og við erum að ræða um risavaxið mál. Við erum að tala um eignir sem nema 319 milljörðum kr., 15% af vergri landsframleiðslu.

Þótt ekki væri nema bara út af þessu fann ég mig knúna til að leggja fram sérálit því að mér finnst það kúnstugt þegar hér er stöðugt verið að kalla eftir einhverjum breyttum og bættum vinnubrögðum að þetta séu vinnubrögðin sem okkur er boðið upp á. Ég er ekki að biðja um að við eyðum endilega löngum tíma í þingsal í að ræða þetta mál. Ég er að biðja um eðlilegt samráð um mál sem við erum öll búin að segjast vilja leysa og erum öll af vilja gerð til að leysa saman.

Ég get eiginlega ekki sagt að mér finnist þessi framkoma boðleg en það kemur svo sem ekki á óvart því að svona er þetta búið að vera allt þetta kjörtímabil.

Hér er um að ræða eignir sem nema um 15% af vergri landsframleiðslu og mér finnst mikilvægt að minna á að þessi vandi var enn meiri strax eftir hrun og við innleiðingu fjármagnshafta var þetta umfang u.þ.b. 41% af vergri landsframleiðslu. Þeir sem eru með nefndarálit mitt undir höndum geta skoðað ágætismynd sem er tekin út úr síðasta ársriti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem sýnir hvernig þetta umfang hefur minnkað sem gerir eftirleikinn auðveldari. Hins vegar eru gild rök fyrir því, ef við erum sammála um að létta eigi höftum af almenningi, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum, að taka þarf á þessum vanda með sértækum hætti og í raun og veru hefur það verið leiðarljós allt frá því að fyrst var birt áætlun um afnám gjaldeyrishafta árið 2011.

Hins vegar minni ég aftur á samráð sem var lofað. Þau loforð hafa ekki verið efnd og ég harma það. Það er erfitt að leggja mat á aðra möguleika, hér hafa verið nefndir möguleikar á borð við skattlagningu á þessum eignum, þegar okkur eru gefnir 48 tímar til að leysa þetta mál, sérstaklega í ljósi þess að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar voru mjög stóryrtir í byrjun kjörtímabils, bæði að mikið samráð yrði haft og að þetta mál mundi taka skamma stund. Ég fer aðeins yfir það í álitinu að afnám hafta átti að taka sex til níu mánuði í upphafi kjörtímabils. Við megum ekki gleyma því að þó að þetta sé vissulega áfangi á þeirri leið er núna komið árið 2016 og þó að við samþykkjum þetta frumvarp á eftir verður íslenskur almenningur enn í höftum, líka íslensk fyrirtæki og íslenskir lífeyrissjóðir. Aftast á listanum. Þannig er það.

Ég bendi líka á að ýmislegt í þessari lokalausn er með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í þeirri áætlun sem var kynnt 2015. Þá var gert ráð fyrir þessu útboði á haustmánuðum 2015 áður en þrotabúin slyppu úr höftum en nú hefur því verið snúið við og ég hefði talið gott ef við hefðum fengið tíma til að meta hvort það drægi úr þrýstingi á eigendur aflandskrónueigna. Í raun var ekki tími til að meta þá spurningu.

Ég tek undir sjónarmiðin sem hv. þm. Brynjar Níelsson fór yfir og birtast í nefndaráliti meiri hlutans um að eðlilegt sé að bæta við ákveðnum takmörkunum og réttindum í þágu almannahagsmuna enda standist slíkar takmarkanir stjórnarskrá. Það var farið vel yfir þá álitsgerð sem Davíð Þór Björgvinsson skilaði til nefndarinnar og hafði áður verið skilað til ráðuneytisins. Ég tel þau rök sem þar eru færð fram sannfærandi og byggjast á því, eins og hv. þingmaður fór yfir áðan, að skilgreiningin sé skýr á eignunum sjálfum en ekki endilega eigendum þeirra. Það tel ég að standist.

Ég vil hins vegar segja að það er margt annað sem ég tel að hefði þurft að skoða samhliða þessu máli. Þar ber kannski fyrst að nefna aðgerðir gegn þeim vaxtamunarviðskiptum sem var imprað á við 1. umr. um þetta frumvarp. Við vitum af nýjum vanda sem er þar að hlaðast upp sem nemur nú nærri 100 milljörðum og getur haft veruleg áhrif á stöðugleikann. Til að taka á þeim vanda þarf væntanlega aðgerðir, annaðhvort í formi bindiskyldu eða skattlagningar. Það kallar væntanlega á frekari lagabreytingar og ég fæ ekki séð annað en að höftum á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði verði ekki aflétt fyrr en búið er að leysa þessi mál. Ég hefði talið eðlilegt að við ræddum þau samhliða þessu máli, í þverpólitísku samráði.

Síðan er stórt umhugsunarefni að ekkert er vitað um raunverulega eigendur aflandskrónueigna eins og ég hef spurt eftir nokkrum sinnum í þingsal. Hins vegar var það upplýst á fundum nefndarinnar að gert yrði ráð fyrir heimildum fyrir Seðlabankann í útboðsskilmálum þessa útboðs til að afla slíkra upplýsinga með það að markmiði að geta veitt skattyfirvöldum og öðrum aðilum þær upplýsingar án þess að það hafi áhrif á útboðið sjálft.

Vissulega er yfirlýst markmið stjórnvalda með þessari aðgerð að tryggja greiðslujöfnuð og stöðugleika en það er samt umhugsunarefni að hér er verið að hleypa eigendum þessara eigna úr landi án þess að við vitum í raun og veru nokkuð um raunverulegt eignarhald á eigunum.

Ég vil að lokum segja að ég tek undir ýmis sjónarmið í nefndaráliti meiri hlutans, þau sem ég nefndi áðan og raunar fleiri, og tel að eins vel hafi verið farið yfir málið og unnt var á þeim skamma tíma sem gefinn var í meðförum nefndarinnar hjá hv. formanni, Frosta Sigurjónssyni, en treysti mér eigi að síður ekki til að styðja málið eftir að hafa ekki fengið meiri tíma til að fara yfir það en raun ber vitni. Aðgerðin verður fyrst og fremst að mínu viti að vera á ábyrgð ríkisstjórnarinnar en í raun eru talsverð vonbrigði hversu hægt hefur miðað í að ná þessu aðalmarkmiði sem við höfum flest sagst vera sammála um sem er losun hafta á almenning, fyrirtæki og lífeyrissjóði á Íslandi sem nú hafa verið undir höftum í á áttunda ár og munu þurfa að bíða enn því að frekari aðgerða er þörf.