145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:26]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Eins og komið hefur fram varðar sú grein bara efni þessa frumvarps. Það er ekki hægt að taka það á einhvern víðari hátt. Og líka, það er svolítið mikilvægt að halda því til haga, að þetta á aðeins við eftir á. Það verður bara hægt að vita eftir á þegar fólk fer í þá framkvæmd að leysa út hverjir það eru. Segjum sem svo að maður mundi vilja reyna að koma í veg fyrir spillingu, þá er ekki hægt að gera það fyrir fram. Ef maður vill koma í veg fyrir og hindra að hér sé verið að blekkja almenning, þá er ekki hægt að gera það fyrir fram. Það er það sem ég á líka við þegar ég er að tala um að renna blint í sjóinn af því að enginn veit hverjir þetta eru og það er mjög erfitt. Og þó svo að Seðlabankinn hafi svona miklar heimildir er ekkert víst að það séu ekki einhverjir — eins og ég segi, þ.e. spagettíið sé á þann veg að ómögulegt sé að rekja það á endanlegan stað. Margir af þeim aðilum eru með alls konar félög sem heita Egla og Gammi og Falson og guð má vita hvað. Ég held að þetta sé svona svipað og með aðra sem vilja koma sér undan lögum, um leið og er búið að reyna að byrgja brunninn þá eru grafin ný göng í gegnum lögin. En ég vona að ákvæði séu í þessum lögum sem geta orðið góð viðmið til framtíðar í öðrum málum því að þetta er endalaust. Þetta er bara eins og að búa undir fjalli sem alltaf eru endalaus snjóflóð og (Forseti hringir.) alveg sama hversu marga garða maður byggir, það er ekki alltaf hægt að fyrirbyggja að yfir mann flæði.