145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð því miður að segja að mér hefur ekki fundist auðvelt að spá fyrir um það hvað stjórnvöldum þykir eðlilegt að nota upplýsingar í hverju sinni. Ég reyni þó að fá mína handleiðslu úr stjórnarskrá lýðveldisins, 71. gr. nánar tiltekið, en ekki síður persónuverndarlögum sem mér finnst líka mikilvægt að við höldum til haga í umræðunni. Það er ekki bara stjórnarskráin. Það eru líka persónuverndarlög.

Það ætti líka að vera okkar einlæga viðleitni að við viljum ekki ganga lengra í persónuupplýsingasöfnun eða samkeyrslu eða vistun en nauðsynlegt er til að ná fram einhverjum lögmætum markmiðum.

Hvað varðar tillögu vinstri grænna, hina ágætu þingsályktunartillögu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þá er þetta umræða sem ég mundi satt best að segja frekar vilja taka í samhengi við hana eins og hún er lögð fram vegna þess að hún fjallar aðallega um ríkisskattstjóra og skattamál og allt sem þeim viðkemur. Þar er ýmislegt sem varðar persónuupplýsingar, söfnun á þeim, vinnslu, úrvinnslu, samkeyrslu, vistun og hýsingu sem þyrfti að ræða út frá markmiðum um skatteftirlit en ekki út frá markmiðum um gjaldeyrisútboð og allt sem því viðkemur, stöðugleika hagkerfisins o.s.frv.

Í báðum tilfellum hugsa ég, fullyrði reyndar, að um sé að ræða ríka almannahagsmuni en þeir koma misjafnlega að málinu og varða þessi tvö markmið með ólíkum hætti, sennilega, mér þykir það líklegt. En eins og ég segi, það er eitthvað sem ég mundi vilja ræða frekar í samhengi við þingsályktunartillögu vinstri grænna en endilega í samhengi við þetta mál og vissulega ekki í sambandi við túlkun á 14. gr. vegna þess að 14. gr., enn og aftur, varðar þetta frumvarp. Mig langar að lesa úr frumvarpinu, úr 14. gr., með leyfi forseta:

„Seðlabanki Íslands hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara. Skylt er, að viðlögðum dagsektum skv. 17. gr., að veita Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg í því skyni.“

Mjög mikilvægt er að við höldum þessu til haga og áttum okkur á því hvað við erum að tala um, alltaf, þegar við fjöllum um upplýsingar, persónulegar eða ekki.