145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[21:58]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd en ég vil hrósa þeim sem þar sitja fyrir góða vinnu og líka þeim sem hafa komið að samningu frumvarpsins. Ég tel að það sé gott skref í þá átt að við getum farið að aflétta höftum. Einnig erum við með þessum hætti að ramma inni eða múra inni þá sem eiga hér aflandskrónur. Það hefur komið fram að þegar þessir fjármunir, yfir 300 milljarðar, tikka hér á 5% vöxtum þá er samfélagið að tapa á ári, frá því að höftin voru sett, 16 milljörðum, alls um 86 milljarðar sem eru gríðarlega miklir fjármunir. Þetta er vandi sem við verðum að losna við. Ég held að þetta sé ágætisskref í þá átt.

Það var metið þannig á sínum tíma að innleiðing hafta væri órjúfanlegur hluti af viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við bankahruninu í þeirri efnahagsáætlun sem var undirbúin og framkvæmd í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það þurfti að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekara stórfellt útflæði erlends gjaldeyris, en gengi krónunnar hafði fallið um 50% gagnvart evru frá miðju ári 2007 sem leiddi til þess að verðbólga náði hámarki í ársbyrjun 2009 og var rúmlega 18%, 18,6%. Það út af fyrir sig hefur gríðarlega neikvæð áhrif á efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja. Það er það sem við erum að reyna að vernda hér í dag, efnahag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.

Með frumvarpinu er verið að múra inni aflandskrónurnar á vöxtum sem eru 0,5%, sem eru tiltölulega lágir vextir, en eigendum þeirra er annars vegar gefinn kostur á því að ganga út á genginu 220 eða fara í útboð á vegum Seðlabankans.

Mig langar að fjalla aðeins um hvernig þetta er. Það segir í frumvarpinu að það feli í sér skyldu vörsluaðila aflandskrónueigna til þess að aðgreina sérstaklega þær aflandskrónur sem ekki verða nýttar í fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands. Merking hugtaksins, aflandskrónueignir, er skilgreint og lagt til að þær eignir verði áfram háðar sérstökum takmörkunum. Aflandskrónueignir í formi innstæðna munu flytjast á innlánsreikninga háða sérstökum takmörkunum hjá innlendum innlánsstofnunum eða Seðlabanka Íslands í tilviki erlendra verðbréfamiðstöðva. Hið sama á við um greiðslur vegna annarra eigna sem teljast til aflandskrónueigna. Þá munu aflandskrónueignir í formi rafrænt skráðra verðbréfa í vörslu innlendra og erlenda fjármálastofnana flytjast á umsýslureikninga hjá Seðlabanka Íslands á nafni viðkomandi vörsluaðila. Lagt er til að fjármálafyrirtækjum og verðbréfamiðstöðvum verði gert skylt að flytja aflandskrónueignir eigi síðar en 1. september 2016 að viðlögðum dagsektum. Innstæður á reikningum með sérstökum takmörkunum verða háðar sérstakri bindiskyldu samkvæmt 8. gr. frumvarpsins. Úttektir á reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum eru óheimilar nema í ákveðnum tilfellum sem rakin eru í IV. kafla frumvarpsins. Seðlabankanum er svo falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og til þess eru bankanum veittar víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og úrræði í formi t.d. dagsekta og stjórnvaldssekta.

Ef frumvarpið verður að lögum mun Seðlabanki Íslands birta upplýsingar um fyrirhugað gjaldeyrisútboð sem miðar að því að greiða fyrir útgöngu aflandskrónueigna án neikvæðra áhrifa á gengisstöðugleika á innlendum gjaldeyrismarkaði og gjaldeyrisforða bankans, þar sem öllum aflandskrónueigendum verður gefinn kostur á að skipta aflandskrónum sínum í evrur og komast þannig hjá þeim takmörkunum sem lagðar eru til í frumvarpinu.

Eins og ég sagði áðan tel ég að þetta sé góð leið. Ég held að það sé rétt að stíga þessi skref. Og ég finn að það er mikill og breiður stuðningur fyrir frumvarpinu á Alþingi. Ég heyri reyndar að sumum finnst að tíminn hafi verið lítill til þess að fá upplýsingar og setja sig gaumgæfilega inn í málið, en ég hef ekki heyrt annað en að því sé sýndur skilningur að það sé einmitt gert á meðan markaðir eru lokaðir.

Það eru tvö atriði sem mig langaði að koma inn á, vegna þess að ég hef heyrt umræðu um þau í ræðustól Alþingis. Það er annars vegar það að efni frumvarpsins feli í sér takmörkun á ráðstöfunarrétti eigenda fjármuna sem njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, samanber einnig 2. mgr. 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að eignarrétturinn sé friðhelgur og að engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji og þarf til þess lagafyrirmæli og að fullt verð komi fyrir. Almennar takmarkanir á eignarrétti teljast almennt ekki brot gegn ákvæðinu og stofna því ekki til bótaskyldu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í nefndaráliti meiri hlutans er vísað þessu til stuðnings til dóms Hæstaréttar frá 28. október 2011, í máli nr. 340 frá sama ári, þar sem Hæstiréttur taldi að löggjafinn hefði bæði rétt og skyldu við aðstæður sem þessar til þess að grípa til lagasetningar sem löggjafinn metur nauðsynlega til verndar almannahagsmunum. Auðvitað koma upp vangaveltur hvort löggjafinn geti gengið lengra og hvort það sé hægt í þessum tilvikum, hvort það hefði t.d. verið möguleiki á að hafa gengið hærra, 240, ég hef heyrt þeirri tölu fleygt í umræðunni. Þá hafa menn rökstutt það að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar geri að verkum að það verði að mæta meðalhófstakmörkunum, gæta verði meðalhófs þegar farið sé fram með þetta.

Ég vil þó segja eitt sem mér hefur kannski fundist vanta aðeins í umræðuna. Ég tel að löggjafinn hafi almennt mjög sterkar heimildir til að meta það hvenær almannahagsmunir liggja fyrir til að ganga megi í þær aðgerðir eins og verið er að gera núna. Ég held að staðan sé þannig að löggjafanum sé nánast veitt fullt vald til þess að meta það hvenær almannahagsmunir eru til staðar. Ég mundi segja að þeir væru heldur betur til staðar. Við erum að tala um aðila sem voru fyrst og fremst að hagnast á óförum Íslendinga, aðila sem taka sér stöðu, ekki bara á Íslandi heldur í löndum sem hafa farið illa út úr efnahagshruni, ekki ósvipað og við Íslendingar. Það þarf að taka hart á þeim.

Þannig að ég vil að það komi fram að það er mín skoðun að löggjafinn hafi mjög sterkar heimildir til að meta hvenær þessir almannahagsmunir eru til staðar og menn þurfi ekkert að óttast það, mér er til efs að látið verði á þetta reyna fyrir dómstólum. Ég ætla að leyfa mér að spá fyrir um það. En við skulum sjá til.

Síðan hefur líka aðeins verið rætt úr þessum ræðustól hvort hægt sé að fá upplýsingar um það hverjir raunverulegir eigendur aflandskróna eru. Hér hefur verið vísað í 14. gr. frumvarpsins þar sem segir að Seðlabanki Íslandi hafi eftirlit með framkvæmdum og það sé skylt, að viðlögðum dagsektum samkvæmt 17. gr., að veita honum allar þær upplýsingar og gögn sem hann telur nauðsynleg í því skyni. Í nefndaráliti meiri hlutans segir, með leyfi forseta:

„Ekki liggur fyrir hverjir raunverulegir eigendur aflandskróna eru, en í útboði Seðlabankans er gert ráð fyrir að hægt sé að kalla eftir slíkum upplýsingum og skylt að veita þær sé þess óskað.“

Ég hefði persónulega viljað hafa sterkara orðalag. Ég hefði sagt að við ættum ekki að hafa þetta opið á einhvern hátt, það sé „gert ráð fyrir“. Það stendur í 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins að Seðlabankinn geti framkvæmt vettvangskannanir. Ég held að það verði að vera þannig að Seðlabankanum sé skylt að kalla eftir þessum upplýsingum. Ef það er eitthvað sem við höfum lært af efnahagshruninu þá er það að það að leyna fjármunum og eignarhaldi gerir ekkert annað en að grafa undir fjármálakerfinu, almenningi og fyrirtækjum í landinu. Við þurfum að skoða þetta.

Ég hef reyndar fengið þær upplýsingar að það sé afar erfitt að fá þessar upplýsingar og menn hafi gert sitt ýtrasta til þess að nálgast þær, það sé því miður viss bankaleynd á þeim. Maður gerir ekki ráð fyrir því að verið sé að fara gegn lögum. En ég held að við sem sitjum á Alþingi ættum að velta því fyrir okkur hvort við þurfum að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitsins enn frekar frá því sem nú er til að nálgast svona upplýsingar. Ég er ekki viss um að það dugi þó að ákvæði sé í 14. gr. um að Seðlabankinn geti gert þetta, það á bara við um útboðið. Ég held að það sé einfaldlega þannig að þeir sem vilji halda áfram að leyna sínum upplýsingum muni ákveða að fara út á genginu 220 þannig að þær upplýsingar munu ekki liggja fyrir og við munum ekki fá þær jafnvel þótt Seðlabankinn geti kallað eftir þeim.

Ég veit að nefndin fór gríðarlega vel ofan í þessa hluti. Ég hef heyrt það bæði hjá meiri og minni hluta nefndarinnar að hún telur ekki hægt að ganga lengra í þessu máli og ég styð það. Ég hef heyrt færð fyrir því mjög málefnaleg og góð rök, en ég held að við eigum að taka það til umhugsunar á Alþingi hvort við þurfum ekki að styrkja heimildir Fjármálaeftirlitsins enn frekar.

Ég hafði ekki ætlað mér að hafa þetta mikið lengra, ég vildi bara koma á framfæri þessum sjónarmiðum. Ég vil þakka efnahags- og viðskiptanefnd fyrir vinnu hennar og þeim sem stóðu að gerð þessa lagafrumvarps. Ég tel þetta vera jákvætt skref við losun hafta, höft sem voru sett af illri nauðsyn, því miður. Það er verið að koma í veg fyrir að íslenska krónan falli eða gengi hennar hrynji við mögulegan útþrýsting á aflandskrónunum sem eru fastar inni í þessum höftum. Vandamálið er og verður að höftin munu bitna á almenningi í landinu og fyrirtækjum.

En þetta er vel unnið frumvarp, gott og jákvætt skref. Ég vil ganga eins langt og hægt er til þess að taka á þessum hrægömmum eða þeim sem eiga þessar aflandskrónur, hvaða nöfnum sem menn vilja kalla þá. Ég tel að þetta sé ágætt skref í þá átt.