145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en hv. þingmaður fór aðeins inn á skoðanir tveggja pírata sem hafa talað í kvöld. Þeir eru einungis tveir. Það er sá sem hér stendur og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.

Mig langaði að halda því til haga að það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var að fjalla um var að vita ekki hverjir það væru sem um ræddi í frumvarpinu, hvaða aðilar það væru. Það er ekki sama spurning og varðar 14. gr. 14. gr. frumvarpsins varðar upplýsingasöfnunarheimildir eða öllu heldur eftirlitsheimildir Seðlabankans og þar er munur á. Ég sé ekki að 14. gr. frumvarpsins mundi einhvern veginn gera það auðveldara fyrir Seðlabankann að svara spurningum hv. þm. Birgittu Jónsdóttur áður en frumvarpið er samþykkt. Ég sé það ekki.

Hins vegar hefur einnig komið fram að við útboðsferlið geti Seðlabanki Íslands hugsanlega með tímanum svarað þingmönnum þessari spurningu. Enda er það ekki það sama að svara þingmönnum á lokuðum nefndarfundi annars vegar og hins vegar að fela Seðlabankanum eftirlitshlutverk. Þetta er tvennt ólíkt. Mig langaði að halda því til haga.

En mig langaði að spyrja vegna þess að hv. þingmaður fór réttilega yfir að það liggur á þessu máli og þetta þarf að gerast fljótt: Telur hv. þingmaður að 14. gr. hefði fengið nánari og ítarlegri umræðu og jafnvel breytingartillögu ef málið hefði fengið hefðbundnari tíma til þinglegrar meðferðar? Eða telur hv. þingmaður kannski að greinin sé fullkomin eins og hún er?