145. löggjafarþing — 114. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[22:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Heldur hv. þingmaður að ef það eitt hefði vakað fyrir Seðlabanka Íslands að fá upplýsingar með þessum hætti um þá sem hugsanlega tengjast hryðjuverkum eða hugsanlega tengjast peningaþvætti, að það hefði ekki komið fram í greinargerðinni?

Það kemur ekkert fram um það í greinargerðinni. (BN: Jú, það gerir það.) Nei. Það kemur ekkert fram um það í greinargerðinni um 14. gr. sem fylgir frumvarpinu. Alls ekki neitt. Og það var það sem ég rak augun í. Það var ekki skilgreint með neinum hætti. Þá er mjög erfitt annað en að draga þá ályktun að þetta sé mjög almenn heimild.

Hæstv. forseti. Er það ekki einmitt vegna þess, ef framsögumaður mundi nú hlýða á mitt mál, að Seðlabankinn telur að það sé nokkurs virði að hafa upplýsingar sem hægt er að vinna í gegnum slíkt ef til málarekstrar kæmi? Ég er þeirrar skoðunar og þess vegna held ég að þetta sé þarna.

Þess vegna tel ég að hægt sé að vinna slíkar upplýsingar og nýta þær án þess að fara endilega hættulega nálægt æskilegri persónuvernd.