145. löggjafarþing — 115. fundur,  22. maí 2016.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum.

777. mál
[23:14]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka öllum þeim sem hafa unnið baki brotnu að þessu verki í mjög langan tíma og eins á þinginu. Ég þakka nefndinni sem vann hér gott starf yfir helgina.

Ég þakka líka þann breiða stuðning sem er við frumvarpið. Hér er staðfest sú stefna ríkisstjórnarinnar að forgangsraða í þágu heimila og fyrirtækja. Sá hluti sem hér fer fram er nauðsynleg forsenda til að hægt sé að aflétta höftum af almenningi og fyrirtækjum í landinu. Það er ánægjulegt að þingið geti tekið svona verkefni að sér á svo stuttum tíma og náð þó þeirri breiðu samstöðu sem um það náðist.