145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

skráning lögheimilis.

[15:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að í burðarliðnum hefur verið frumvarp um breytingar á ákvæðum laga sem snúa sérstaklega að lögheimili. Þar undir hefur verið það umfjöllunarefni hvort hjón geti í ákveðnum tilvikum haft sitt lögheimili hvort svo dæmi sé tekið. Svo er auðvitað verið að skoða önnur ákvæði í tengslum við það lagafrumvarp sem ég á ekki von á að muni líta dagsins ljós á þessu löggjafarþingi.

Hv. þingmaður nefnir hér atriði sem ég treysti mér ekki til að úttala mig um í fyrirspurnatíma, en það eru áhugaverðar pælingar um það hvort þær skrár sem við erum með núna standist fyllilega tímans tönn, eins og ég skil spurningu hv. þingmanns, og hvort örari breytingar í fjarskiptamálum og internetmálum eigi að hafa áhrif á þær miklu skrár sem við höldum á vegum ríkisins. Þær eru umfangsmiklar eins og við þekkjum, ekki bara þjóðskrá heldur ýmsar aðrar skrár líka.

Ég efa það mjög, þótt ég ætli ekki að fullyrða um það, að þetta álitamál hafi komið upp í vinnunni við frumvarpið til þessa. Mér er ljúft að kanna hvernig því er háttað og eiga þá orðastað við hv. þingmann þegar ég er betur undir það búin að svara þessum tilteknu spurningum. En ég leyni því ekki að mér þykir spurningin sem hv. þingmaður kemur fram með áhugaverð.