145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

kosningar í haust.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekkert breyst varðandi það sem við forsætisráðherra höfum áður sagt að stefnt er að kosningum í haust. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að þingstörfin hafa gengið ágætlega. Það skiptir mjög miklu máli. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að það í heild sinni skiptir ekki bara máli fyrir þingstörfin heldur fyrir lýðræðislegan undirbúning og framkvæmd utan þings. Í því efni er hægt að segja frá því að ég sat síðast kjördæmisráðsfund í mínum stjórnmálaflokki í gær þar sem byggt var á því að kosið yrði í haust þar sem ákveðið var að efna til prófkjörs núna í haust, síðsumars í eða í haust. Sama gerðist í mínu eigin kjördæmi í síðustu viku þar sem við í Suðvesturkjördæmi ákváðum að halda prófkjör seint í ágúst eða byrjun september, þannig að það hefur ekkert breyst í þeim efnum.

Ég tek hins vegar fram að ég skil vel að skiptar skoðanir séu um þessi efni. Við sáum það líka á könnunum sem gerðar voru á sínum tíma meðal landsmanna. Það voru skiptar skoðanir í þjóðfélaginu hvort kjósa ætti núna í vor eða í haust eða síðar, þannig að það kemur út af fyrir sig ekki á óvart. En við lögðum af stað í þessu endurnýjaða stjórnarsamstarfi með þá hugsun. Það hefur ekki verið rætt okkar í milli og stendur ekki til að gera breytingar á því.