145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

kosningar í haust.

[15:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Því miður er það ekki að ástæðulausu að maður spyr um hvort fyrirheit um kosningar verði efnd vegna þess að gefin voru líka fyrirheit um þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu kjörtímabili sem því miður varð ekkert af. Að því sögðu þá fagna ég yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins um að þær yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra standi og ekki standi til að breyta þeim. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu að það komi skýrt fram. En ég neyðist til að spyrja ráðherrann um þær yfirlýsingar sem formaður Framsóknarflokksins gaf í gær, m.a. þá að til þess að það gæti orðið af kosningum í haust þurfi samþykki þingflokka beggja stjórnarflokkanna og það liggi ekki fyrir. Nú heyri ég hæstv. fjármálaráðherra segja að hið endurnýjaða stjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks byggi á því að gengið verði til kosninga í haust og spyr hann þess vegna hvort hann líti ekki svo á að forsætisráðherra hafi sjálfur lýst þessu yfir fyrir hönd Framsóknarflokksins og þingflokkur Framsóknarflokksins sé bundinn af því samkomulagi flokkanna eins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins virðist telja sig vera.