145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

samkeppnisstaða álfyrirtækja.

[15:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra ávarpaði ársfund Samáls þann 18. maí síðastliðinn þar sem hún lagði áherslu á að bæta samkeppnisstöðu álfyrirtækja á Íslandi. Þar sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Í því skyni höfum við nýlega hafið greiningu sem felur meðal annars í sér skoðun á framtíðarfyrirkomulagi í orkuflutningum og samanburð á flutningskostnaði á raforku á Íslandi og í Noregi. Íslenskur áliðnaður er sem áður segir ein af megingrunnstoðum í efnahagslífi Íslands og því leggja stjórnvöld hér eftir sem hingað til áherslu á það að leggja sitt af mörkum til að leggja þeirri stoð samkeppnishæft og traust rekstrarumhverfi.“

Á þessum sama fundi kom fram, í kynningu KPMG, úttekt fyrirtækisins á evrópskum orkumarkaði. Þar kom fram að margt benti til þess að flutningur raforku til stóriðju í Noregi væri niðurgreiddur með óeðlilegum hætti af hinu opinbera. Af þessum sökum vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Vill iðnaðarráðherra að ríkið greiði niður flutning raforku til álveranna hér á Íslandi til að bæta samkeppnisstöðu þeirra gagnvart stóriðju í Noregi? Væri ekki nær að kanna hvort Norðmenn standi fyrir ólögmætum niðurgreiðslum á flutningi raforku eins og KPMG hefur bent á að vísbendingar séu um?