145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

fjárframlög til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[15:24]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vil segja að komið hefur upp sérstök staða varðandi nokkra framhaldsskóla. Þeir eru sex að tölu sem eru í svipaðri stöðu og VMA núna. Þannig er mál með vexti að um síðastliðin áramót var uppsafnaður halli í framhaldsskólakerfinu 240 millj. kr. Samkvæmt þeim rekstraráætlunum sem samþykktar höfðu verið og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni var gert ráð fyrir því að á árinu yrðu greiddar niður 60 millj. kr. af hallanum.

Án þess að fara út í tæknilegar orsakir þess þá gekk það ekki eftir að þessar áætlanir væru keyrðar inn í grunnana hjá Fjársýslunni þannig að það var greinilega gert ráð fyrir því að allar 240 milljónirnar yrðu greiddar nú þegar á þessu ári. Það stóð aldrei til og var aldrei lagt upp með það. Þær rekstraráætlanir sem samþykktar höfðu verið af hálfu ráðuneytisins gerðu ráð fyrir 60 millj. kr. niðurgreiðslu á hallanum.

Ég get upplýst hv. þingmann um að staðið hafa yfir fundir um hvernig hægt sé að takast á við þennan vanda. Niðurstaðan er sú að skólunum sem eru í þessari stöðu verður hleypt í þá stöðu af hálfu Fjársýslunnar, sem er í samræmi við þær áætlanir sem skólarnir sjálfir höfðu gert. Það þýðir að Menntaskólinn á Akureyri, Kvennaskólinn og Flensborgarskólinn komast í mun betri stöðu. Reyndar er það þannig með skólann á Laugum og á Snæfellsnesi að þeir fá líka hlutdeild í þeim sérstöku fjármunum sem ætlaðir voru í fjárlögum til fámennra skóla.

Eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni er rekstrarvandi Verkmenntaskólans á Akureyri meiri en svo að sú aðgerð, þ.e. að koma skólunum inn í áætlunina, dugi fyrir þann skóla. Þar er uppsafnaður vandi. Ég vonast því til þess að það sé komið fyrir vind hvað varðar (Forseti hringir.) kerfisþátt málsins, það er kominn tími til, og að sú lausn sem ég var að lýsa hér sé að (Forseti hringir.) verða að veruleika, en það er enn ákveðinn vandi sem við munum standa frammi fyrir varðandi Verkmenntaskólann á Akureyri.