145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

fjárframlög til Verkmenntaskólans á Akureyri.

[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka eftirfarandi: Uppsafnaður rekstrarvandi á framhaldsskólastiginu var við upphaf þessa árs 250 millj. kr. og rekstraráætlanir sem samþykktar höfðu verið gerðu ráð fyrir því að greiddur væri niður 60 millj. kr. halli á árinu. Það hefði ekki gengið eftir að vinna eftir þessum rekstraráætlunum og er þar augljóslega um að ræða tæknileg mistök. Niðurstaðan sem komin er í samtali á milli embættismanna þeirra tveggja ráðuneyta sem fjalla um þetta mál, er sú að þeir skólar sem hér um ræðir og eru í þeim vanda sem verið er að lýsa, það er ekki bara Verkmenntaskólinn á Akureyri, það eru fleiri skólar, verði settir í þá stöðu að vera á áætlun eins og gert var ráð fyrir.

Aftur á móti er vandi Verkmenntaskólans á Akureyri meiri en svo að sú aðgerð dugi ein og sér. Þess vegna þarf að fara nánar í málefni þess skóla.

Virðulegi forseti. Það er engin launung á því í þinginu og ég hef sagt það ítrekað að það vantar enn fjármuni inn í framhaldsskólakerfið. Það var verulegur niðurskurður á fjármunum undanförnu ári eða árunum eftir hrun inn í framhaldsskólakerfið. Ríkisendurskoðun benti á að 2 milljarðar hefðu verið teknir út úr kerfinu og að það hefði verið erfitt fyrir framhaldsskólana (Forseti hringir.) að vinna sig út úr því. En eins og (Forseti hringir.) ríkisfjármálaáætlun sýnir stefnir í betri tíma, en þessi vandamál eru enn til staðar. Unnið verður að því að finna lausn á þeim.