145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:29]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. fjármálaráðherra um þá ríkisfjármálaáætlun sem var lögð hér fram fyrir skömmu því að hún hefur valdið verulegum vonbrigðum eins og sjá má af viðbrögðum bæði vinnumarkaðarins og viðskiptalífsins. Hún er eiginlega hvorki né, og í henni er ekki að finna skýra stefnu í ríkisfjármálum.

Í orði kveðnu boðar ríkisfjármálaáætlun samdrátt og niðurskurð í framkvæmdum og rekstri til að slá á þenslu eins og það heitir. En samt er skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar óbreytt. Ef það er eitthvað sem er þensluhvetjandi þá eru það auðvitað skattalækkanir.

Nú hafa fróðir aðilar, t.d. norska hagstofan, sýnt fram á það með gögnum að skattalækkanir eru bæði óhagkvæm og óréttlát leið, að minnsta kosti ef markmiðið er að fjölga störfum og auka jöfnuð, en það er nú sjálfsagt ekki markmið þessarar ríkisstjórnar. En alla vega þá ýta skattalækkanir undir þenslu.

Á sama tíma eru velferðarstofnanir í svelti. Það er ekki verið, eftir því sem best verður séð, að auka eða bæta þjónustu, lækka greiðsluþátttöku sjúklinga því að miðað við greiðsluþátttökufrumvarpið, sem verið er að fjalla um hér, eiga engir peningar að fara inn í það svo að sjúklingar eru sjálfir að taka á sig tilfærslur af öðrum sjúklingahópum.

Þetta vil ég ræða við hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að maður hefði haldið að nú væri lag til að nýta góðærið sem þessi ríkisstjórn fékk í arf og smyrja tannhjólin í velferðarkerfinu, (Forseti hringir.) miða að því að efla og styrkja þjónustu ef ekki er hægt að auka framkvæmdastigið.