145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hinn 15. febrúar lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um Húsavíkurflugvöll, sem ég kem nánar að á eftir. Þó að liðnir séu þrír mánuðir þá veit ég að fyrirspurnin hefur ekki komist á dagskrá fyrr en nú, sem ég þakka fyrir.

Skemmst er frá því að segja að Flugfélagið Ernir tók upp áætlunarflug til Húsavíkur fyrir nokkrum árum og er fjöldi farþega mjög mikil. Sem dæmi má taka að í mars í fyrra fóru 680 farþegar um völlinn en hvorki meira né minna en 1.700 á þessu ári. Þetta hefur gjörbreyst og flugið er mikið notað eins og kemur fram í þessum tölum.

Það er ýmislegt að á Húsavíkurflugvelli sem þarf að laga. Áður hef ég gert að umtalsefni aðflugsvitann og fjarlægðarmælinn og kem að því enn einu sinni.

Þessi fyrirspurn var sett fram eftir fund með bæjaryfirvöldum á Húsavík og fleirum, þar sem menn lýstu yfir miklum áhyggjum af því, sem þá hafði spurst út, að áform væru um að mjókka flugbrautina, sem er lögð varanlegu slitlagi, úr 45 metrum í 30.

Spurt er: Hvað sparast við það?

Í öðru lagi: Hver er kostnaðurinn við slíka aðgerð ef af verður og hvernig skiptist hann? — Ég vona að hæstv. ráðherra þurfi ekki að segja mér hver sá kostnaður sé, vonandi hefur verið hætt við þetta.

Í þriðja lagi er það atriði sem ég hef spurt nokkrum sinnum um áður en hef aldrei fengið viðhlítandi svör: Hvers vegna eru aðflugsvitinn og fjarlægðarmælirinn í flugturninum ekki tengdir og teknir í notkun?

Skemmst er frá því að segja að þarna eru tæki, sem eru að vísu sennilega 15–20 ára gömul, aðflugsgeislamælir og fjarlægðarmælir, sem eru auðvitað mjög mikil öryggistæki og auka þjónustu. Sem dæmi má taka að ef þessi tæki eru ekki í notkun, eins og er núna, þá er lágmarksfetafjöldi 680 fet sem vélar geta komið inn til lendingar. Ef þessi tæki væru tengd eða í lagi væru það aðeins 300 fet. Þarna munar miklu. Þetta hefur gert að verkum að þetta flugfélag, sem flytur svo marga farþega, hefur oft þurft að lenda á Akureyri með kostnaði og óþægindum fyrir fólk og kostnaði fyrir félagið við að fara þarna um.

Í fjórða lagi spyr ég um í hvað eigi að nota þær 150 millj. kr. sem ráðstafað er í Húsavíkurflugvöll á þessu ári. Ég þykist vita það. Það skal líka tekið fram sem vel er gert og mér er kunnugt um að leggja eigi yfir völlinn nýtt slitlag og setja upp brautarljós. Uppsetning brautarljósanna kann kannski að svara til um það hver breiddin verður. (Forseti hringir.)

En þetta eru þær spurningar sem ég lagði fram. Ég vænti þess að hæstv. innanríkisráðherra gefi okkur góð svör um það hver staðan er á þessum flugvelli sem er svo mikið notaður sem raun ber vitni.