145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka það fram að það er afskaplega gleðilegt að sjá hve Húsavíkurflugvöllur hefur komist í mikla notkun. Þetta er flugvöllur sem við héldum kannski mörg að endanlega væri búið að slökkva ljósin á, en nú sjáum við að þau umsvif sem eru á þessu svæði hafa gert að verkum að menn sjá möguleika á að halda fluginu uppi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt.

Þá ætla ég að hefjast handa við að svara spurningum hv. þingmanns. Ég ætla að játa það fyrir þingheimi að ég var svolítið ringluð fyrst í því hvernig ég ætti að svara spurningunni, þeirri fyrstu, hvers vegna standi til að mjókka flugvöllinn á Húsavík úr 45 metrum í 30, hvað sparist við það, af því að flugbraut flugvallarins á Húsavík er 30 metra breið. Í kafla um flugvöllinn í flugmálahandbók kemur fram að flugbrautin sé skilgreind 30 metra breið og hún er tjörubundin malarbraut. Flugvöllurinn hefur verið skilgreindur með þessum hætti mörg undanfarin ár. Gert er ráð fyrir, eins og hv. þingmaður nefndi, að slitlagið verði endurnýjað í sumar og þar er áfram gert ráð fyrir 30 metra breiðri braut. Kostnaðurinn við þetta slitlag — þá er hv. þingmaður áfram að velta fyrir sér 45 metrunum, en flugbrautin er 30 metra breið og þannig er það.

Þriðja spurningin er: Hvers vegna eru aðflugsvitinn og fjarlægðarmælirinn í flugturninum ekki tengdir og teknir í notkun? Aðflugsvitinn sem staðsettur er á Húsavíkurflugvelli er frá árinu 1978. Hann hefur ekki verið í notkun í tíu ár og hefur verið metinn ónýtur af starfsmönnum Isavia. Vegna aldurs hans er ekki hægt að fá neina varahluti í vitann, en auk þess hafa kröfur og reglugerðir breyst á þann veg að ekki er talið svara kostnaði að reyna að gera við hann. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að skilgreina svokölluð GPS-aðflug inn á minna notaða flugvelli í innanlandsflugi, en stefnt er að því að hafa aðflugsvita fyrir skilgreinda millilandaflugvelli sem eru Keflavík, Reykjavík, Akureyri og Egilsstaðir.

Endurnýjun á aðflugsvita á Húsavík hefur verið metin á 50–70 milljónir. Enn sem komið er hefur ekki verið metin nákvæm áætlun vegna þessa og er mismunur á upphæðum háður því hve fullkominn þessi aðflugsviti er. Að sjálfsögðu leyfi ég mér að fullyrða að það hefur líka mjög mikið að gera með þá notkun sem er á flugvellinum, og við sjáum að hún er töluvert. Þetta er mjög mikilvæg spurning sem hv. þingmaður varpar þarna fram.

Í fjórða lagi er spurt að því í hvað eigi að nota þær 150 milljónir sem ráðstafað er í Húsavíkurflugvöll á þessu ári. Heildaráætlun í viðhald á Húsavíkurflugvöll á þessu ári eru 202 millj. kr. röskar. Þar af er 85 millj. kr. áætlaðar vegna klæðningar á flugbrautina af því hún er orðin töluvert gömul eins og hv. þingmenn þekkja. Ekki verður hjá því komist að leggja nýja klæðningu. Gert er ráð fyrir 117,5 millj. kr. vegna nýrra flugbrautarljósa og er þá gert ráð fyrir endurnýjun ljósanna, auk þess sem rafmagnskerfi flugvallarins verður meira og minna endurnýjað.

Hæstv. forseti. Svarið er í raun og veru þetta: Húsavíkurflugvöllur er kominn í töluvert mikla notkun. Það er alveg ljóst að yfirvöld samgöngumála líta til flugvallarins þegar kemur til viðhalds. Það er verið að stíga þarna tiltekið skref sem er mjög brýnt þegar kemur að slitlaginu, en ég fullyrði að það er engan veginn svo að með því slitlagi sé viðhaldi og endurnýjun á Húsavíkurflugvelli lokið.