145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að vekja athygli á stöðu Húsavíkurflugvallar og einnig hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal fyrir skýr svör.

Það er jákvætt að verið er að setja töluverða fjármuni í klæðningu á flugbraut og ný flugbrautarljós og um leið verið að endurnýja rafkerfið. Við hljótum að spyrja okkur hvort við þurfum ekki að tryggja að þessi flugvöllur geti verið áfram og verði sem best úr garði gerður til að nýta það gríðarlega mikla flug sem fer um völlinn, það getur orðið meira. Við erum til dæmis að ræða það í umhverfis- og samgöngunefnd að öryggi á vegum sé ábótavant og þá getur verið best að styrkja innanlandsflugið. Og það að styrkja við alla innanlandsflugvellina er jákvætt skref.

En þetta er allt til skoðunar í umhverfis- og samgöngunefnd og við skulum sjá hvað setur í þeim málum.