145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Húsavíkurflugvöllur.

520. mál
[15:47]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta þarfa mál hér á dagskrá, sem er staðan á Húsavíkurflugvelli. Þar hefur, eins og fram hefur komið, orðið mikil aukning á notkun og mikil ánægja með að geta byggt þar upp samgöngur tengdar uppbyggingu og auknum ferðamannastraumi á staðinn. Ráðherra fór yfir það hvað stæði til að endurnýja og það er gott og vel; það er fagnaðarefni að menn eru að huga að því.

Nú virðist verið að taka upp nýjan búnað í aðflugsgræjum í flugvélum. Ég spyr: Er haft samráð við þá sem þjónusta flugið, sem sjá um flugið, varðandi það hvaða tækni er notuð? Það virðist vera, ég hef heyrt því fleygt, að jafnvel sé hægt að lenda vélum á Akureyri sem ekki er hægt að lenda á Húsavík.

En ég fagna öllu því sem kemur að uppbyggingu og áframhaldandi viðhaldi á þessum flugvelli.