145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

metanframleiðsla.

572. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hennar og þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. En af því að hæstv. ráðherra minntist á orkuskipti í samgöngum má einnig koma inn á það að metan má einnig nota beint í raforkuframleiðslu. Það eru því margir möguleikar sem koma til með aukinni framleiðslu hér á landi. Ráðherra kom inn á það að hér á landi væri aðeins eitt tilraunabú í þessum efnum. Erlendis, þar sem maður hefur ferðast um sveitir, er þetta mun algengara í landbúnaði. Nýting á því er þar góð, þetta lækkar meðal annars kostnað fyrir þau bú sem í hlut eiga.

Þar sem við töluðum um gjöldin, ef þessi framleiðsla er skattlögð, þá er spurning hvers vegna metan hefur ekki enn orðið ofan á eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Þá er spurning hvort hægt væri að veita afslátt til þessara tilraunaverkefna. Það eru til aðferðir hér á landi til að örva metanframleiðslu. Það kom meðal annars fram á ráðstefnunni sem haldin var hér 2014.

Ég fagna því mjög, sem hæstv. ráðherra sagði, að hún mundi leggja fram nýja áætlun um orkuskipti til næstu ára; ég mun fylgjast grannt með þeirri áætlun og hvernig henni verður framfylgt. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom svo inn á að metanið væri innlendur eldsneytisgjafi en það yrði gífurlegur gjaldeyrissparnaður í því að vera með innlendan orkugjafa, eldsneytisgjafa. Við ræddum einnig um að metan gæti verið hættulegt ef það slyppi beint út í andrúmsloftið, en um leið og notkun þess dregur úr hættulegum úrgangslofttegundum minnkar sót og ryk og fleira óæskilegt sem kemur frá þeim bílum sem við notum í dag.