145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

flugþróunarsjóður.

636. mál
[16:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrirspurnin er reyndar orðin pínu gömul og súr, er síðan snemma í mars, en það breytir því ekki að það er ágætt að taka þetta samtal hér til að skerpa á því út í frá fyrir væntanlega fleiri sem snýr að flugþróunarsjóðnum. Hann inniheldur markaðsþróunarsjóð og leiðaþróunarsjóð. Ég fór á kynningu hjá Markaðsskrifstofu Norðurlands og Air 66N þar sem þessar hugmyndir voru kynntar á sínum tíma. Nú er sem sagt búið að samþykkja að veita 170 milljónir í þennan sjóð og mig langar að velta upp með ráðherra nokkrum spurningum í því sambandi fyrir utan þær tvær sem eru á blaðinu.

Markaðsþróunarsjóðurinn er til þess að byggja upp nýjar leiðir og síðan er niðurgreiðslan á áhættu við að byggja upp nýja leið, svo er stuðningur við markaðssetningu áfangastaða. Það er verið að tala um að vera með 300 millj. kr. árlega í þrjú ár, ríkið leggur sem sagt á móti og flugrekstraraðilinn líka. Ég spyr hvort það geti verið íþyngjandi eða hvernig þetta virkar, hver staðan sé. Því var komið á fyrir austan, þetta hefur verið hjá Austurbrú og Markaðsskrifstofu Norðurlands og Íslandsstofu. Millilandaflug fór af stað þar sem hefur dregið aðeins úr þeim áformum sem uppi voru. Mig langar að spyrja hverju miðar þar ef hæstv. ráðherra getur upplýst um það af því að þetta snýst líka um markaðssetningu þeirra sem öllu ráða, hvort sem það er Stjórnstöð ferðamála eða hverjir það eru sem þurfa að markaðssetja landið á annan hátt en gert hefur verið. Þá þurfa heimamenn að vera þar í broddi fylkingar. Hér er fyrst og fremst gengið út frá Akureyri og Egilsstöðum og mig langar að heyra hjá ráðherra hvernig þau mál ganga.

Ef þetta næst inn af þungum og fullum krafti erum við að tala um að við getum byggt upp heildstæða heilsársatvinnugrein þar sem starfsmenn búa og greiða útsvar. Við getum tekið Mývatn sem dæmi og fleiri staði sem byggja gríðarlega mikið á aðkeyptu vinnuafli yfir hábjargræðistímann í staðinn fyrir að geta verið með heilsársatvinnugrein þar sem búsetan er til staðar, börn í skóla o.s.frv.

Það er líka verið að tala um að aðrar atvinnugreinar gætu nýtt sér þetta, m.a. fiskvinnslan. Bæði á Akureyri og Dalvík er öflug fiskvinnsla. Þetta er stuttur tími til að viðra þetta mál, en mig langar sem sagt að spyrja (Forseti hringir.) ráðherrann um þetta og mig langar líka að spyrja um flutningsjöfnun á eldsneyti ef ráðherra veit eitthvað um það mál, hvort við getum séð það koma til líka. Það er klárlega eitt af því sem gæti létt róðurinn á þessum stöðum.