145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

flugþróunarsjóður.

636. mál
[16:15]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem er aðeins farin að eldast, en það er hvorki við mig né fyrirspyrjanda að sakast að hún hafi ekki komist fyrr á dagskrá. Ég tek undir að það er mjög gott að ræða þessi mál. Ég get sagt frá því að nýverið skipaði ég stjórn sjóðsins þannig að þessi vinna er komin af stað en aðdragandinn er þannig að 30. október sl. samþykkti ríkisstjórnin að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja stofnun þessara tveggja sjóða, markaðsþróunarsjóðs og áfangastaðasjóðs sem við köllum sameiginlega flugþróunarsjóð. Þetta er gert á grundvelli tillagna nefndar sem forsætisráðherra skipaði og ég get sagt að sú framkvæmd sem við erum að vinna eftir er í öllum meginatriðum mjög í samræmi við tillögur nefndarinnar. Markmið sjóðsins er að styðja við reglulegt millilandaflug um aðra flugvelli en í Keflavík. Starfsemi sjóðsins styður því í öllum atriðum við þau markmið okkar sem við höfum sett fram í Vegvísi í ferðaþjónustu hvað varðar dreifingu ferðamanna yfir landið og dreifingu ferðamanna yfir árið yfir landið, allt Ísland allt árið. Eins og fyrirspyrjandi nefndi er hérna fyrst og fremst átt við Akureyri og Egilsstaði, a.m.k. til að byrja með, og byggir samþykktin eins og ég sagði á þessum tillögum nefndarinnar.

Í framhaldi af þessu fórum við í mínu ráðuneyti í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið yfir þessar tillögur þar sem þetta eru ríkisstyrkir. Við þurfum að gæta að því að fara að þeim ríkisstyrkjareglum sem okkur ber að fara eftir á grundvelli samstarfs okkar á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftir þá skoðun var það niðurstaða beggja ráðuneyta að við gætum þegar í stað hafið undirbúning að uppsetningu þessa sjóðs þar sem búið væri að tryggja fjárheimildir til að koma honum af stað og í fjármálaáætlun 2017–2021 sem nýverið hefur verið lögð fram er gert ráð fyrir að 300 millj. kr. renni á ári í þrjú ár til reksturs sjóðsins.

Eins og ég sagði hef ég skipað sjö manna stjórn. Þar eru fulltrúar tilnefndir af forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heimamönnum bæði fyrir norðan og austan, Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú, Isavia og Íslandsstofu. Formaður stjórnar var svo skipaður af iðnaðar- og viðskiptaráðherra og það er Valgerður Rún Benediktsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í ráðuneytinu hjá mér, sem þekkir þetta mál afar vel.

Við þurfum eins og ég sagði áður að lúta evrópskum ríkisstyrkjareglum og mér þótti afar mikilvægt að við færum af stað og biðum ekki eftir því að setja þetta á laggirnar miðað við stærri kerfi sem við þurfum að fá samþykkt strax frá ESA. Í samræmi við reglugerð ESB um minni háttar aðstoð, svokallaða „de minimis aid“, megum við veita ríkisstyrki fyrir allt að 200.000 evrur, í kringum 28 milljónir íslenskra króna á núverandi gengi, til hvers viðtakanda yfir hvert þriggja ára tímabil.

Í samvinnu við stjórn sjóðsins verður unnið að tilkynningu til ESA um framtíðarstarfsemi sjóðsins og leitað eftir samþykkt á því fyrirkomulagi sem sjóðurinn mun starfa eftir, en ég ítreka að við getum byrjað með lægri upphæðir sem við teljum eftir gott samráð við fólk sem þekkir þessi mál og hefur unnið að þessu að muni hjálpa til við að koma þessu af stað. Eins og fyrirspyrjandi vék að hefur verið sá flöskuháls að það er kostnaðarsamt að byggja upp nýja áfangastaði. Flugfélögin gera það ekki nema þau sjái sér hag í því. Því er það vel réttlætanlegt á þeim forsendum, bæði byggðasjónarmiðum og líka vegna þeirra markmiða sem við höfum sett okkur hvað varðar ferðaþjónustuna, að setja á laggirnar styrkjakerfi til að koma þessu af stað. Við sjáum svona kerfi annars staðar, m.a. í dreifðari byggðum í Noregi og sú starfsemi hefur verið samþykkt af ESA, þannig að ég held að allar forsendur ættu að vera þær sömu hér og eru þar. Eins og ég segi er vinnan að fara af stað þessa dagana og samhliða því að auglýsa og koma verkefninu núna (Forseti hringir.) hið fyrsta af stað munum við vinna tilkynninguna til ESA um stærra kerfið sem þarf að samþykkja.