145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

málefni Stjórnstöðvar ferðamála.

750. mál
[16:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin, svo langt sem þau náðu. Ég vil spyrja í fyrsta lagi, til þess að fylgja því eftir sem ég spurði um áðan: Hver er tímalínan varðandi auglýsingu og ráðningu nýs framkvæmdastjóra? Síðan vil ég spyrja hver reynslan sé af vegvísinum, hver staða hans sé og hvort hæstv. ráðherra telji að vegvísirinn og Stjórnstöðin hafi skilað þeim árangri sem vænst var, þeim árangri í að samþætta verkþætti, eins og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir og hafði auðvitað væntingar til.

Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að ráðherrann ber ábyrgð á stórum málaflokki og mjög vaxandi málaflokki, þ.e. málaflokki ferðamála á Íslandi: Erum við tilbúin í ferðamannasumarið 2016? Erum við tilbúin með tekjuöflunina? Erum við tilbúin með utanumhald að því er varðar öryggismál? Erum við tilbúin með viðunandi innviði? Erum við tilbúin með salerni? Erum við tilbúin með þá þætti sem viðunandi eru til að geta tekið á móti metfjölda ferðamanna að þessu sinni? Erum við tilbúin, virðulegi forseti? Ég spyr hæstv. ráðherra þessarar spurninga og óska eftir skýrum svörum vegna þess að ef við erum ekki tilbúin að þessu sinni endurspeglar það ekkert annað en ráðleysi og ábyrgðin er hæstv. ráðherra.