145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

málefni Stjórnstöðvar ferðamála.

750. mál
[16:38]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr um tímalínuna varðandi auglýsinguna. Starfið var auglýst laust á laugardaginn fyrir viku síðan. Mig minnir, og ég bið hv. þingmann að afsaka ef það er ekki rétt, að það hafi verið tveggja vikna umsóknarfrestur. Ráðningarferlið er í höndum ráðningarstofu og mun stjórn rekstrarfélagsins, þar sem eiga sæti fulltrúi frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, hafa með það ráðningarferli að gera.

Erum við tilbúin í ferðamannasumarið 2016 og hver er reynslan af vegvísinum? Ég get sagt hv. þingmanni varðandi reynsluna af vegvísinum og því samstarfi og þeim samstarfsanda og -vilja sem komið hefur fram í allri þeirri vinnu að það voru yfir þúsund manns sem komu með beinum hætti að þeirri stefnumótun og haldnir voru yfir 50 fundir vítt og breitt um landið þannig að eigendur þessa plaggs eru fjölmargir. Þetta er ekki einhver stefna sem er skrifuð á skrifstofunni minni og fólki úti í bæ ætlað að framfylgja, þetta er stefna sem við höfum komið okkur saman um og hefði átt að gera mun fyrr. Við erum búin að vinna ötullega að því bæði að setja á laggirnar greiningarvinnu og undirbúningsvinnu, sem þarf að gera og styttir allan framkvæmdatíma á endanum, og síðan eru fjölmörg verkefni farin í gang. Þingmaðurinn spyr um öryggismálin. Já, við höfum gripið til aðgerða sem m.a. miða allar að því að tryggja betur öryggi ferðamanna hér á landi. Við erum búin að setja aukna fjármuni, eins og ég sagði, í uppbyggingu innviða. Það er verið að byggja salerni, reisa handrið, útbúa aðstöðu (Forseti hringir.) í þessum töluðum orðum úti um allt land. Þannig að já, ég segi það að við vinnum að því hörðum höndum (Forseti hringir.) að ferðamannasumarið 2016 verði okkur öllum bæði gleðilegt, ánægjulegt og öruggt og að við getum með stolti áfram tekið á móti (Forseti hringir.) ferðamönnum, sem samkvæmt nýjustu könnunum eru afar jákvæðir og segjast vera ánægðir með dvöl sína hér.