145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Grænlandssjóður.

754. mál
[17:01]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp til nýrra laga um Grænlandssjóð hefur verið á þingmálaskrá mennta- og menningarmálaráðherra frá því í haust. Drög að frumvarpinu hafa verið til kynningar á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá 12. maí síðastliðnum. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum er til 1. júní.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir hér, að ekkert frumvarp er gallalaust frekar en önnur mannanna verk. En ég geri mér von um, að því gefnu að hv. Alþingi samþykki afbrigði, að hægt verði að ganga frá þessu máli að fengnum athugasemdum og ef agnúar og vankantar eru á að þeir verði þá sniðnir af í meðförum hv. nefndar og í umræðum hér í þinginu.

Frumvarpið er reyndar fremur lítið að vöxtum, aðeins fimm greinar. En breytingar á núgildandi lögum um sjóðinn eru alger forsenda þess að hægt sé að úthluta styrkjum úr honum.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að því hvers vegna gera þarf þessar breytingar þannig að hægt verði að nýta þá fjármuni sem þar eru til að standa undir öllum þeim glæsilegu og spennandi verkefnum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Þrátt fyrir að höfuðstóll Grænlandssjóðs sé um 63 millj. kr. hafa ekki verið veittir styrkir úr sjóðnum frá árinu 2011. Ástæða þess er hvernig núgildandi lög um Grænlandssjóð, sem eru nr. 102/1980, eru úr garði gerð. Samkvæmt 5. gr. laganna má aðeins veita 9/10 hluta af vaxtatekjum í styrki en frá árinu 2010 hefur ávöxtun sjóðsins verið lítil sem engin og jafnvel neikvæð og því ekki hægt að úthluta styrkjum. Þannig stendur nú lagaumhverfið af sér. Þess vegna er mikilvægt að breyta þessum lögum. Ég treysti á liðsinni hv. þingmanns og vaskleika hans, sem er annálaður, við að veita allan stuðning sem veita má til þess að frumvarpið fari hér í gegn og verði að lögum þannig að hægt sé að nýta þessa fjármuni.

Hv. þingmaður vildi fá upplýsingar um hversu mikið fé væri í Grænlandssjóði, hvar og hvernig það væri ávaxtað og hversu miklu fé hefði verið úthlutað á kjörtímabilinu úr sjóðnum. Ég hef í raun svarað þessu hér en vil þó segja það til glöggvunar að samkvæmt ársreikningum Grænlandssjóðs fyrir árið 2014 var höfuðstóll hans í dönskum krónum rúmlega 2,9 millj. kr. eða 61.667.706 íslenskar krónur. Ávöxtunin var 297 danskar krónur eða 6.154 íslenskar krónur. Árið 2013 var höfuðstóllinn einnig rúmlega 2,9 millj. danskra króna en ávöxtunin var núll krónur, hvort sem var í dönskum eða íslenskum krónum, og auðvitað liggur það í eðli máls.

Seðlabanki Íslands, sem annast fjárreiður sjóðsins, varðveitir hann á dönskum gjaldeyrisreikningi. Er það væntanlega gert af því að í 4. gr. gildandi laga um sjóðinn frá árinu 1980, en áður hefur verið vikið að þeim lögum, er heimildarákvæði þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Framlögum og öðrum tekjum sjóðsins má“ — og ég ítreka „má“ — „jafnóðum breyta í grænlenskan gjaldeyri.“

Grænlenskur gjaldeyrir er eins og kunnugt er dönsk króna. Seðlabankinn hefur nýtt þetta ákvæði frá upphafi en frá hruni hefur ávöxtun sjóðsins verið mjög léleg. Af þeim sökum hefur engu fé verið úthlutað úr sjóðnum frá og með árinu 2011.

Þar með tel ég að ég hafi gert nokkuð grein fyrir efnisástæðum og aðstæðum þessa máls en vil segja, og taka undir með fyrrverandi hæstv. ráðherra, sem ég veit að í ráðherratíð sinni sýndi þessum málaflokki sérstaka athygli, að það er ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að rækta mjög samband okkar við Grænlendinga, treysta það og tryggja, bæði sjálfra okkar vegna og þeirra. Ég á við það að við græðum mjög á öllu menningarlegu samstarfi, báðar þjóðirnar að sjálfsögðu, en við eigum líka að leggja grunn að góðu efnahagslegu samstarfi. Gríðarleg tækifæri bíða á Grænlandi sem við Íslendingar getum lagt gott af mörkum til á góðum forsendum þannig að efla megi bæði efnahagslega og menningarlega samvinnu þessara landa öllum til góða. Ég held að það sé rétt, sem hv. þingmaður benti hér á, að hv. þm. (Forseti hringir.) Unnur Brá Konráðsdóttir hefur unnið gott starf á vettvangi Vestnorræna ráðsins. Ég held að góð sátt sé um þessi mál hér í þinginu. Þess vegna hef ég ekki neinar áhyggjur af því að frumvarpið verði ekki að lögum um leið og það er komið hér inn.