145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla enn og aftur að ræða um ferðaþjónustuna. Þegar vorið er komið og ferðamannastraumurinn er að þyngjast hef ég miklar áhyggjur af því hvernig staðan er og hvað mér finnst stjórnvöld í raun hafa verið úrræðalaus í þessum málaflokki. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er gríðarleg áskorun að taka á móti öllum þessum fjölda ferðamanna og við höfum sofið á verðinum í mörg ár. Maður les ítrekað um það í fréttum að ferðamenn virði ekki takmarkanir, lokanir og annað, sem hafa verið settar. Ég velti fyrir mér hvort við þurfum ekki á einhverjum tímapunkti að íhuga alvarlega hvort við ættum að sekta fyrir slíkt athæfi, þegar fólk fer jafnvel og lendir í að festa bíla sína og þar fram eftir götunum vegna þess að það virðir einfaldlega ekki þær merkingar sem settar hafa verið upp.

Svo heyrast fréttir af hjólhýsum sem verið er að leigja og þeim hjólhýsum er lagt eiginlega bara úti um hvippinn og hvappinn, í útskotum á vegum og útsýnisstöðum. Þetta er vandamál sem þarf að taka á. Auðvitað á að vera pláss fyrir alla þessa fjölbreytni en við þurfum að vera tilbúin að takast á við þann vanda. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu, hef ítrekað talað hér um salernismálin líka eins og ég hafi þau alveg á heilanum. Það skiptir bara máli að sú grunnþjónusta sé til staðar og þegar ég hef rætt þetta við ráðherra fæ ég í rauninni þau svör að þetta séu bara ýkjur, að fjölmiðlar séu að blása upp vandann þannig að ég er farin að spyrja vini mína, leiðsögumenn, þegar ég hitti þá hvort þetta sé ekki raunverulegt vandamál. Ég fæ undantekningarlaust þau svör að svo sé.

Það er að mörgu að hyggja og ég vil segja að ég hef áhyggjur af þessu og vil (Forseti hringir.) að stjórnvöld spýti algjörlega í lófana í þessum málaflokki.


Efnisorð er vísa í ræðuna