145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Um liðna helgi afgreiddi þingið frumvarp til laga um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, svokallaðar aflandskrónueignir. Ég ætla að nota tækifærið hér í störfunum og lýsa ánægju minni með þetta mál og um leið hrósa þinginu fyrir vel unnin störf og fyrir skilvirkni, samvinnu og samstöðu.

Hér vorum við að stíga örugg, varfærin en afar mikilvæg skref í átt að losun hafta. Óhjákvæmileg, mundi einhver segja, og nauðsynleg til þess að treysta grundvöll fyrir frjáls viðskipti milli landa með íslenskar krónur svo að slík frjáls viðskipti geti orðið á þeim forsendum, eins og í fyrri skrefum og aðgerðum við losun hafta, án þess að það ógni fjármálalegum og peningalegum stöðugleika með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf, efnahag og lífskjör almennings. Það er algjört grundvallaratriði eins og í fyrri aðgerðum.

Málið kom hér til þingsins afar vel ígrundað og undirbúið eins og reyndin var með þau frumvörp sem sneru að stöðugleikaframlögum og stöðugleikaskatti og þingið tók til umfjöllunar og vinnslu á sínum tíma með svipuðum hætti. Vinna hv. efnahagsnefndar var afar góð og mikil, samstaða í nefndinni um úrvinnslu málsins. Þá naut nefndin umsagna og útskýringa helstu stofnana og ráðgjafa eins og Seðlabankans og ráðuneytisins sem ber að þakka.

Virðulegi forseti. Við höfum hingað til fetað þessa leið úr höftum í litlum, öruggum skrefum í átt að ákveðnu marki. Hér var um slíkt samtaka skref að ræða og sannarlega til þess fallið að skapa forsendur fyrir frekari skrefum í átt að losun hafta.


Tengd mál