145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlega sendi Fjármálaeftirlitið frá sér álit á því að það teldi að verklag Landsbankans við sölu á 31,2% eignarhluta hans í Borgun hefði ekki verið að öllu leyti samræmt eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði, eins og þar stendur, með leyfi forseta. Þetta er út af fyrir sig ágætisyfirlýsing en það sem vakti athygli mína er að hún er gefin út 31. mars þetta ár en salan í Borgun fór fram í nóvember 2014 og mér er ekki kunnugt um að Fjármálaeftirlitið hafi með nokkrum hætti gert athugasemdir við þá sölu fyrr en nú. Ég velti fyrir mér hvaða hógværð það sé sem hrjái Fjármálaeftirlitið vegna þess að það er annað mál líka sem ég hef rekið mig á núna sem ég tel að sé fullkomlega þess virði að Fjármálaeftirlitið fari yfir. Það er svo að í 52. gr. laga nr. 161/2002 stendur að þeir sem stýra fjármálastofnunum skuli „ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög“ o.s.frv.

Svo vill einmitt til að í einum viðskiptabanka þjóðarinnar situr framkvæmdastjóri en á hans tíma í öðru starfi árið 2008, 2013 og 2014 var lagt á það fyrirtæki stjórnvaldssekt fyrir að brjóta samkeppnislög ítrekað. Stjórnvaldssektir þessar nema á annan milljarð króna. Nú hlýtur maður að spyrja vegna þess að viðskiptabankinn sem um ræðir ku vera í söluferli hvort söluverð bankans geti hugsanlega orðið fyrir tjóni af þessari staðreynd. Maður hlýtur að spyrja hvort Fjármálaeftirlitið ætlar virkilega ekki að láta í sér heyra vegna þessa. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna