145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Að vísað sé til fjölmiðla sem fjórða valdsins endurspeglar hversu mikilvægu hlutverki fjölmiðlar gegna í þjóðfélaginu. Af því leiðir að það er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að ljóst sé hverjir eiga fjölmiðlana og hverjir stjórna þeim og að ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra sé tryggt. Ég hef heyrt það stundum að það hafi þó verið skárra hér á árum áður þegar stjórnmálaflokkarnir áttu dagblöðin og skrifuðu í þau. Þá hafi fólk vitað hverjir stóðu fyrir þeim skoðunum sem settar voru fram. Ef það er eitthvað til í því, sem ég held að sé nú ekki, þá er það það eina sem er skárra við það system sem var en það sem er núna.

En einmitt vegna þess hve stjórnmálamenn njóta lítils trausts verða áhrif fjölmiðlanna meiri. Þess vegna er enn þá mikilvægara að ljóst sé hverjir standa á bakvið þá. Í hinni hörðu stjórnmálaumræðu sem verið hefur hér að undanförnu hefur það að minnsta kosti vakið athygli mína að stjórnmálamenn velja sér við hvaða fjölmiðla þeir hafa samband og við hvaða fjölmiðla þeir tala. Sá grunur læðist að mér að það sé vegna þess að þeir telji sig fá blíðari meðferð þar en annars staðar. Slík hegðun er til sannindamerkis um hve nauðsynlegt það er að hér sé rekinn fjölmiðill sem gætir almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna, fjölmiðill sem stjórnmálamenn geta ekki sagt fyrir verkum. Þess vegna er nauðsynlegt að standa vörð um Ríkisútvarpið og berjast með öllum ráðum gegn tilraunum til að gera hlut þess minni en nú er.

Það verður gert með því að minnka ekki og takmarka fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Það má aldrei skrúfa niður í því útvarpi, virðulegi forseti.