145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:27]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það hefur aldrei í sögunni verið auðveldara en nú að útvarpa, jafnvel sjónvarpa og líka prenta þann boðskap sem menn hafa og vilja koma á framfæri.

Fjölmiðlun hefur aldrei verið jafn algeng og almenn og hún er í dag og heldur aldrei jafn ódýr. Það er ágætt að menn hafi það í huga þegar menn ræða stöðu fjölmiðlanna. Þeir hafa breyst svo mikið í eðli sínu og eru núna á hvers manns færi.

Í því ljósi er ágætt að skoða stöðu allra þeirra einkaaðila sem áhuga hafa á að útvarpa sínum sjónarmiðum eða koma þeim á framfæri með einhverjum öðrum hætti, og skoða stöðu þeirra í þeirri gríðarlegu samkeppni sem þeir standa frammi fyrir gagnvart ríkinu. Gagnvart Ríkisútvarpinu – sjónvarpi sem hefur í meðgjöf frá skattgreiðendum yfir 4 milljarða og auglýsingatekjur að auki.

Það er staðan í dag. Það má ekki gleyma því heldur að ríkið rekur yfir fimm fjölmiðla. Það er með fimm fjölmiðla á sínum snærum.

Hafi menn raunverulegan áhuga á að ýta undir hvers kyns fjölmiðlun og fjölbreytta fréttaumfjöllun þá er þetta vettvangur þar sem bera þarf niður og jafna stöðu allra þessara áhugasömu aðila á markaðnum.

Hér hefur líka verið rætt um dreifða eignaraðild. Ég er reyndar ekki sannfærð um að það skuli vera markmið í sjálfu sér, dreifð eignaraðild að fjölmiðlum, en hún getur verið ágætt tæki og nauðsynleg í mörgu tilliti, ekki síst í ljósi fjármögnunar.

En höfum í huga þá hver staða RÚV er. Menn tala aldrei um dreifða eignaraðild á þeim (Forseti hringir.) ríkisfjölmiðli sem staðsettur er í Efstaleiti. Væri ekki nær að menn litu þangað þegar menn tala um dreift eignarhald?