145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem er brýn á þessum síðustu tímum. Fjölmiðlun breytist mjög ört og nú spretta upp vefmiðlar og ný blöð sem sum hver eru fjármögnuð í útlöndum. Þau virðast í sjálfu sér ekki bæta við flóruna að öðru leyti en því að þjónka við eigendur sína, sem eru misjafnir og margir.

Það er við slíkar aðstæður sem brýnt er að eiga sterkan ríkisfjölmiðil sem er vel rekinn, sem tryggir að allar raddir heyrist, sem tryggir að íslenskt mál sé í hávegum haft, sem vantar líka stundum upp á í ríkisfjölmiðlinum. Horfir nú til betri áttar í því efni þessa dagana.

En ég verð að segja í tilefni af orðræðunni hér fyrr í dag þar sem fjallað hefur verið um að pólitíkusar hóti ríkisfjölmiðlinum, að ég get látið þess getið að þeim sem hér stendur varð það á á fyrsta þingvetri að hnýta í Ríkisútvarpið. Svo vill til að nú fyrir mánuði síðan var sami maður kallaður í fyrsta sinn í viðtal á Rás 2.

Ekki veit ég hvort einhver tengsl eru þarna á milli, (Gripið fram í.) en maður spyr sig í rólegheitum. Mér er svo sem ósárt um það því að ég hef verið tíður gestur á miðlum sem hafa miklu meiri útbreiðslu og miklu meiri áheyrn en þessi stöð, þannig að það er allt í lagi.

En það sem ég á við núna er að ég held að það sé samt sem áður nauðsyn á því að fjölmiðlanefnd og útvarpsréttarnefnd haldi uppi öflugu starfi, ekki síst til þess að tryggja að þeir ljósvakamiðlar sem (Forseti hringir.) hér eru starfandi flytji dagskrá sína á vönduðu íslensku máli.