145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar sem er í þessu tilviki um þau tvö mál er forseti greindi frá. Að meginstefnu til ræðum við stóra breytingu á dómskerfi landsins þar sem við tökum upp millidómstig, sem heitir Landsréttur. Þar eftir verða dómstigin þrjú, þ.e. héraðsdómar, Landsréttur og Hæstiréttur.

Þessu máli fylgja þær breytingar að veruleg breyting verður á stjórnsýslu dómstólanna á þann veg að sameiginleg stjórnsýsla allra þriggja dómstiga verður færð undir nýja stofnun á vegum dómstólanna, dómstólasýsluna, og stjórnsýsla dómstólanna verður með því efld og sjálfstæði þeirra styrkt.

Með frumvarpinu eru lagðar til nýjar málsmeðferðarreglur sem taka mið af nýju millidómstigi og breyttu hlutverki Hæstaréttar. En auðvitað er markmiðið að bæta dómskerfið, vanda betur til verka, tryggja réttlátari málsmeðferð fyrir dómstólum og að æðsti dómstóll landsins, Hæstiréttur, geti betur sinnt því hlutverki sínu að vera fordæmisgefandi dómstóll.

Meginreglan um milliliðalausa sönnunarfærslu mun nú verða fylgt á tveimur dómstigum, bæði í einkamálum og sakamálum, en þessi meginregla er grundvallarregla í réttarríki og felur í sér að öll sönnunargögn skuli færa fram meðan á málsmeðferð stendur fyrir þeim dómurum sem dæma málið. Við teljum í nefndinni að með þeirri breytingu sé komið til móts við alþjóðlegar kröfur, en Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið að milliliðalaus sönnunarfærsla á áfrýjunarstigi sé liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Landsréttur getur endurskoðað alla þætti sönnunarmats. Það verður hægt að leiða ný vitni fyrir Landsrétt og taka viðbótarskýrslur af vitnum og hins vegar er lagt til að allar skýrslutökur í héraði verði teknar upp í hljóði eða mynd þannig að hægt verði að spila þær í heild eða að hluta við aðalmeðferð fyrir Landsrétti.

Miðað við þetta nýja fyrirkomulag mundu öll mál hefjast á fyrsta dómstigi, þ.e. í héraði, en þaðan yrði hægt að áfrýja málum til Landsréttar. Í algjörum undantekningartilfellum yrði hægt að áfrýja dómum héraðsdóms beint til Hæstaréttar.

Það voru margar umsagnir sem bárust við þetta mál og ýmsar voru í þá átt að vilja fjölga mjög þeim málum sem hægt væri að fara með beint fyrir Hæstarétt eftir héraðsdóm og aðrar vildu þrengja þessa heimild til muna.

Við áréttum í nefndaráliti okkar að heimildin er bundin tiltölulega þröngum skilyrðum. Það þarf að vera þörf á skjótri niðurstöðu í málum og það má ekki vera ágreiningur uppi um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar í þeim málum sem eiga að fara flýtileið beint til Hæstaréttar. Það er niðurstaða okkar í nefndinni að breyta ekki þeim tillögum sem birtust í frumvarpinu frá ráðherra að þessu leyti.

Í þessum frumvörpum er að finna heildstæð lagaákvæði um sérfróða meðdómsmenn, en það hefur talsvert verið fjallað um og deilt um með hvaða hætti á að skipa þá, hvernig eigi að meta hæfi þeirra og hvernig eigi að kveðja þá til. Þetta er nýmæli í íslenskri löggjöf.

Það hafa borist athugasemdir frá GRECO, ríkjahópi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn spillingu, við það fyrirkomulag sem hefur tíðkast hér á landi og er hér komið til móts við þau sjónarmið. GRECO gerir fleiri athugasemdir, t.d. varðandi siðareglur, en við bendum á í nefndarálitinu að siðareglur hafa nú þegar verið settar fyrir starfsmenn dómstóla og af hálfu Dómarafélagsins er unnið að því að búa til siðareglur fyrir dómara. Þá er mjög mikilvægt að jafnframt er unnið að því að setja upp skipulag fræðslu fyrir dómara af hálfu dómstólaráðs.

Í frumvarpinu er að finna mikilvægt ákvæði um að dómurum beri að leitast við að viðhalda þekkingu sinni og að þeim skuli gefinn kostur á leyfi og stuðningi til símenntunar. Þetta er atriði sem er gríðarlega mikilvægt og mikil réttarbót og mun koma til með að styrkja íslenska dómstóla til muna. Það ber líka að geta þess að í síðasta úrskurði kjararáðs frá árinu 2015 er að finna leiðir til að styrkja enn frekar dómara í að viðhalda þekkingu sinni.

Miðað við mat okkar í nefndinni og það sem fram kom hjá innanríkisráðuneytinu teljum við að með þessum breytingum hafi verið komið til móts við þær athugasemdir sem GRECO setti fram í skýrslu sinni er lúta að dómurum. En auðvitað munum við halda áfram að fylgjast með hvaða athugasemdir berast um dómstólana og taka þær til skoðunar þegar þar að kemur.

Frumvarpið til laga um dómstóla sem liggur fyrir er viðamikið og fjallar að meginstefnu til um nýjan Landsrétt og breytta skipan Hæstaréttar. Það kemur fram og leiðir af eðli máls að þetta mun hafa í för með sér aukin fjárútlát úr ríkissjóði og við förum nokkuð yfir það í nefndarálitinu, en við teljum mikilvægt að benda á að tryggja þarf nægilega fjármuni til þess að þetta gangi allt saman vel fyrir sig.

Í athugasemdum og umfjöllun nefndarinnar var fjallað nokkuð um eftirlit með dómstólum, en í 5.–8. gr. frumvarpsins eru lagðar til grundvallarbreytingar á stjórnsýslu dómstólanna. Þær fela í sér að dómstólaráð verður lagt niður en sérstök stjórnsýslustofnun innan dómskerfisins verður komið á fót sem ber heitið dómstólasýslan. Við ræddum nokkuð þetta heiti og erum ekki komin með neitt betra, en við skulum sjá til hvort þingheimur hafi betri hugmyndir.

Það hlutverk sem dómstólasýslan mun hafa er að annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna allra. Það á að fela í sér styrkari stjórnsýslu dómstólanna og tryggja samræmi í framkvæmd mála sem varða innri starfsemi dómstiganna þriggja. Þetta er sjálfstæð stofnun, en það þýðir að hún lýtur ekki boðvaldi annarra aðila innan dómskerfisins og er þar með óháð löggjafar- og framkvæmdarvaldi. Við teljum í nefndinni að þessar breytingar séu mikið framfaraskref og teljum að málsmeðferð hjá dómstólasýslunni muni byggja á grundvallarreglum stjórnsýslunnar, þar á meðal reglum um hæfi.

9. gr. felur í sér fyrirmæli um nefnd um dómarastörf. Það liggur í hlutarins eðli með hliðsjón af sjálfstæði dómstólanna að innra eftirlit með störfum dómara sé fyrir komið innan dómskerfisins. Gert er ráð fyrir því að stjórnsýslulög gildi um þessa nefnd, en nefndin fjallar m.a. um kvartanir vegna starfa dómara og þau aukastörf sem dómurum er heimilt að gegna og ég kem aðeins betur að síðar.

Við fengum á fund nefndarinnar umboðsmann Alþingis og fórum yfir þau álit umboðsmanns þar sem hann hefur fjallað um stjórnsýslu dómstólanna, en þau eru nokkur. Hann hefur bent á í álitum sínum og ársskýrslum að réttaróvissa ríki um opinbert eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna. Við í nefndinni erum sammála um að réttarbótar sé þörf um þetta atriði og við kynntum okkur það og það stendur yfir af hálfu forsætisnefndar endurskoðun laga um umboðsmann Alþingis. Það er nefnd að störfum sem hefur það verkefni. Við lýsum því yfir að skoðun okkar í allsherjarnefnd er að rétt sé að breyta lögum um umboðsmann Alþingis á þann veg að eftirlit með nefnd um dómarastörf og stjórnsýsludómstólana verði á hendi umboðsmanns Alþingis, þ.e. að starfssvið hans nái líka til stjórnsýsludómstólanna. Við vonumst til þess þegar frumvarp kemur frá nefndinni um nýja löggjöf eða breytta löggjöf um umboðsmann Alþingis að þessarar skoðunar okkar sjáist merki.

Við leggjum til breytingar til bráðabirgða á ákvæði til bráðabirgða II sem felur í sér að framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar skuli skipaður fyrr, þ.e. frá 1. október 2017, en það er talið nauðsynlegt til þess að hægt sé að undirbúa þessar viðamiklu breytingar og þetta geti allt saman farið af stað á réttum tíma.

Við fjölluðum talsvert um það hvernig dómarar eru skipaðir. Í 11. gr. er fjallað um dómnefndina sem ráðherra skipar til að fjalla um hæfni þeirra sem sækja um embætti hæstaréttardómara, landsréttardómara og héraðsdómara. Þessi nefnd kemur inn í íslenska löggjöf 2011 og það hefur sýnt sig að tilnefningaraðilar hafa ekki talið sig bundna ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna þegar komið hefur að tilnefningum í nefndina.

Við skýrum það hér að það er vilji löggjafans að jafnréttislögin gildi. Við teljum mikilvægt að sá vilji komi skýrt fram og teljum því rétt að lögfesta þegar í stað þetta ákvæði, þannig að það komi fram að vilji löggjafans sé skýr. Við lýsum þeirri skoðun okkar að við teljum æskilegt að Hæstiréttur endurspegli samfélagið betur hvað varðar hlutfall kynjanna en hann gerir núna.

Það kom fram í vinnslu nefndarinnar að það er annað frumvarp í smíðum í innanríkisráðuneytinu varðandi skipan í embætti dómara. Á tímabili stóð til að það frumvarp kæmi hér fram og færi til allsherjarnefndar meðan við værum að vinna þessi mál. Það hefur tafist en frumvarpið er til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Þar er fjallað um breytingar á reglum um skipun dómara og fjölgun þeirra. Við leggjum áherslu á að þetta frumvarp komi sem fyrst í þinglega meðferð og vegna þess að það er í undirbúningi og í umsögn á vefnum leggjum við ekki til frekari breytingar á þeim ákvæðum í þessum frumvörpum sem varða skipun dómara.

Við leggjum til breytingar varðandi hæfisskilyrði þeirra sem sitja í Landsrétti og leggjum til að miðað verði við stöðu dósents til að uppfylla skilyrði til þess að geta tekið sæti sem dómari í Landsrétti. Eitt af þeim atriðum sem mest voru rædd í nefndinni voru aukastörf dómara, en í 45. gr. frumvarpsins er fjallað um þau. Þar er lögð fram sú breyting að meginreglan verði sú að dómara sé óheimilt að taka að sér önnur störf en embættisstörf sín eða eiga hlut í félagi eða atvinnufyrirtæki. Nefnd um dómarastörf geti hins vegar veitt undanþágu frá þessum reglum meti hún það svo að það sé ekki ósamrýmanlegt stöðu dómara eða leiði af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi.

Athugasemdirnar í texta greinargerðar með frumvarpinu eru ansi stífar. Það kom umsögn frá Dómarafélagi Íslands sem gagnrýndi þetta ákvæðið eða aðallega textann og afstöðuna í greinargerðinni, enda telur Dómarafélagið að ákvæðið feli í sér að dómurum verði óheimilt að sitja í þeim nefndum á vegum ríkisins sem fjalla um málefni dómstóla og þá löggjöf sem um þá gildir. Dómarar voru afskaplega ósáttir við þessa niðurstöðu. Þeir leggja reyndar til að reglur um aukastörf dómara verði óbreyttar frá því sem gildir nú og er í núgildandi löggjöf.

Við fjölluðum talsvert um þetta atriði í nefndinni, en við tökum fram að hér er leitast við að skerpa á skilum milli dómsvalds annars vegar og framkvæmdar- og löggjafarvalds hins vegar, við teljum mikilvægt að það sé skýrt, og draga úr líkum á því að dómarar sinni störfum eða inni verk af hendi sem síðar geti beint eða óbeint komið til kasta dómstóla. Við erum því fylgjandi þeirri meginreglu sem sett er fram í frumvarpinu og styðjum hana, þ.e. að dómarar séu ekki almennt í öðrum störfum samhliða dómarastörfum nema í undantekningartilfellum og að nefndin um dómarastörf geti heimilað undantekningar. Það verður alltaf að meta heildstætt hverju sinni af aðstæðum dómarans og eðli þeirra starfa sem um ræðir hvort það verði heimilað. Í flestum tilvikum mundi maður ætla að það sé fullt starf að vera dómari.

Þetta mat nefndarinnar girðir ekki fyrir að framkvæmdarvaldið geti notið reynslu og þekkingar dómara, t.d. við undirbúning löggjafar. Það gæti komið til greina að dómari sæti í undantekningartilfellum í úrskurðarnefnd. Við bendum líka á í nefndarálitinu að það er mat okkar að mikilvægt sé að reglur nefndar um dómararstörf sem nú eru í gildi verði endurskoðaðar og farið verði vel yfir hvaða störf það eru nákvæmlega sem ekki samræmast störfum dómara.

Við bendum á að hér eru lagðar til verulegar umbætur í íslensku réttarkerfi og leggjum til nokkrar breytingar sem eru lagatæknilegs eðlis, sem ég ætla í sjálfu sér ekki að fara sérstaklega yfir en þær liggja frammi.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég rakti og liggja frammi.

Hv. þingmenn Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðmundur Steingrímsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir rita undir þetta nefndarálit með fyrirvara sem lýtur að III. kafla frumvarpsins er fjallar um skipun dómara.

Aðrir þingmenn sem undir það rita eru sú sem hér stendur og hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigurðardóttir og Vilhjálmur Árnason.