145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:11]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kann að vera að ég hafi ekki séð það í frumvarpinu en ég skil það þannig að frumvarp til laga um dómstóla taki ekki á rétti manna til flutnings fyrir Landsrétti í þessu tilfelli, það ætti væntanlega að standa óbreytt til flutnings til héraðsdóms.

Ég nefni þetta sérstaklega af því að ég hefði talið þetta góðan tímapunkt til að endurskoða jafnvel réttindi til flutnings mála fyrir Hæstarétti eins og þau eru í dag. Það hefur lengi horft til óefnis í þeim málum; fá mál eru til boða fyrir prófmenn til að afla réttinda fyrir Hæstarétti. Það hefur valdið nokkurri verðbólgu í svokölluðum fimm dómara málum fyrir Hæstarétti.

Ég sé engin sérstök rök fyrir því að réttindi til flutnings mála fyrir Landsrétti, eins og þetta frumvarp liggur fyrir, eigi að vera önnur en réttindi til flutnings mála fyrir héraðsdómi.

Að því sögðu hefði ég einnig talið heppilegt að endurskoða jafnvel réttindi til flutnings fyrir Hæstarétti. Það er kannski eitthvað sem hv. nefnd gæti skoðað ef málið fer aftur til nefndar. En að minnsta kosti er þetta sjónarmið sem ég tel rétt að komi fram.

Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að samhliða þessu frumvarpi liggja fyrir frumvörp til breytingar á öðrum lögum en ég sé til að mynda ekki þar frumvarp til breytingar á lögum um lögmenn.