145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:14]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem varðar grundvallarbreytingu á dómskerfi okkar og er þar af leiðandi þess eðlis að hér má ekki kasta til höndum. Hér þurfa menn að hugsa og vanda sig við hvert skref sem stigið er. Þess vegna finnst mér, enda þó að einstakir fulltrúar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi haft ýmsar skoðanir á málinu, að menn hafi verið sammála um að reyna að leggja málinu gott til eftir föngum, einmitt vegna þess að svona grundvallandi mál er ekki hægt að afgreiða í aðdraganda kosninga, í því andrúmslofti og þeirri spennu sem myndast oft í mikilli nálægð við kosningar. Svona mál þarf að fara höndum um með yfirvegun og utan við spennuþras sem alla jafna tengist hinu pólitíska vafstri.

Í meginatriðum er nefndin orðin ásátt um málið enda þótt fram hafi komið ýmsar athugasemdir sem ég tel fullrar athygli verðar. Margar þeirra hafa verið teknar til greina og leitast hefur verið við að ná utan um meginþætti málsins og sætta sjónarmið eftir föngum. Ég tel það af hinu góða. En mig langar samt í ræðu minni hér að drepa á þeim helstu atriðum sem mér finnst ástæða til að halda til haga varðandi þetta mál.

Það er tvímælalaust til bóta og mikils um vert að gera þær úrbætur á núverandi dómskerfi að ná megi fram markmiðum á borð við milliliðalausa sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi og að Hæstiréttur fái skýrar afmarkað hlutverk sem fordæmisgefandi og æðsti dómstóll í réttarkerfi okkar. Að því leytinu til eru markmið frumvarpanna beggja, sem við ræðum hér saman, þörf. En eins og ég sagði er ástæða til að vanda vel til verksins og ég finn ekki betur en að verið sé að gera það.

Í fyrsta lagi finnst mér að það sjónarmið sem kom fram fyrir nefndinni varðandi skipun í embætti dómara sé nokkuð sem þurfi að gefa góðan gaum. Af ýmsum umsagnaraðilum var bent á það ráðherravald sem felst í frumvarpinu, að það bjóði upp á pólitísk afskipti við skipan dómara, sérstaklega vegna þess að frumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra geti vikið frá tilmælum hæfnisnefndar við val á dómara og geti gert það með því að kalla eftir einföldum meiri hluta hér á Alþingi við þá ákvörðun. Ég legg til breytingartillögu varðandi þetta sem felur þá í sér að það sé aukinn meiri hluti greiddra atkvæða sem ráði úrslitum um þetta. Við vitum að það er mjög einfalt fyrir ráðherra að koma til Alþingis og fá samþykki fyrir gjörðum sínum en ef verið er að víkja frá úrskurði til þess bærrar hæfnisnefndar við val á dómara finnst mér eðlilegt að þá sé þá af svo augljósum sanngirnisástæðum og réttmætum, að það þurfi meiri hluta í þingsal, sem sagt aukinn meiri hluta í þingsal, tvo þriðju hluta greiddra atkvæða, til þess að fallast á slíkt. Þess vegna legg ég fram breytingartillögu þar að lútandi og ekki bara ég heldur við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni, hv. þingmenn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Guðmundur Steingrímsson.

Þá hafa umsagnaraðilar varað við hættu á því að eftirlit og aðhald með dómurum kunni að skorta vegna þess hvernig búið er um skipan og starfshætti dómara. Það hefur til dæmis verið bent á að rík áhrif sitjandi hæstaréttardómara á skipan nýrra dómara geti leitt til akademískrar og faglegrar einsleitni við réttinn. Ég tek undir þær viðvaranir og tel að taka þurfi tillit til þessara ábendinga varðandi dómaraskipan. En ég tek líka undir þær ábendingar sem hafa komið fram á fundi nefndarinnar og í álitum og ársskýrslum umboðsmanns Alþingis sem formaður nefndarinnar gerði að umtalsefni hér og nefndin tók tillit til í sameiginlegu nefndaráliti, að í lög skorti skýr ákvæði um eftirlit með stjórnsýslu dómstólanna. Við leggjum til ákveðnar úrbætur varðandi það, nefndin í heild sinni, og það held ég að sé til bóta.

Síðan er ástæða, finnst mér, til að taka mark á ábendingum um fyrirsjáanleg vandamál samhliða skipan 15 nýrra dómara á einu bretti, eins og dómstólafrumvarpið gerir ráð fyrir. Svo mikil nýliðun á skömmum tíma leiðir óhjákvæmilega af sér mikla tilfærslu atgervis í dómarastétt sem hætt er við að geti líka kallað fram gagnrýni á reynsluleysi meðal dómara. Þannig geti orðið einhver skortur á tiltrú vegna þessa. Það hefur jafnvel verið talað um að búast mætti við trúnaðarbresti milli dómstólsins og þjóðarinnar af þessum sökum.

Bent var á það fyrir nefndinni að vænlegra gæti verið að dreifa þeirri nýliðun í stétt dómara sem nauðsynleg er vegna frumvarpsins niður á fimm til tíu ára tímabil til að takmarka þau neikvæðu áhrif sem skortur á reynslu meðal dómara kynni að hafa. Það er sjónarmið sem mér finnst full ástæða til að halda til haga.

Í þriðja lagi er rétt að benda á að breytingarnar sem frumvörpin mæla fyrir um eru allar mjög kostnaðarsamar. Það hlýtur að vekja upp spurningar um það hvort nauðsynleg fjármögnun hafi verið tryggð. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að ráðast í svo dýrar breytingar á dómskerfi sem nú þegar á bágt með að valda þeim verkum sem því eru falin vegna fjárskorts, eins og við fengum afar tilkomumiklar lýsingar á frá sumum umsagnaraðilum í nefndinni. Þess vegna er kannski ástæða til að skoða nánar hugmyndir sem hafa komið fram um ódýrari leiðir að þeim markmiðum sem frumvörpin stefna að. Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur sett fram slíkar hugmyndir í grein sinni sem hann birti í Lögmannablaðinu 2015 og nefnist „Hugmyndir um millidómstig“.

Í fjórða lagi má auðvitað draga í efa að með þeirri útfærslu sem þetta frumvarp og þessi frumvörp um dómstóla og millidómstigið fela í sér sé brugðist nógu tryggilega við þeirri gagnrýni sem GRECO, samtök ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, hafa sett fram á íslenskt dómskerfi í matsskýrslu um Ísland sem kom út árið 2013. Í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Ástu Guðrúnu Helgadóttur um þetta atriði, á þskj. 743, kemur fram að í frumvarpinu sé að finna sérstakan kafla um sérfróða meðdómsmenn sem komi til móts við athugasemdir GRECO um þá. Í frumvarpinu sé einnig kveðið á um að dómarar skuli leitast við að viðhalda þekkingu sinni í lögum. Þetta er vissulega til bóta. En það kann að vera að gagnrýni GRECO gefi tilefni til umfangsmeiri viðbragða og það hefði kannski mátt, í frumvarpinu til nýrra dómstólalaga, bregðast við fleiri af þeim annmörkum sem bent var á í GRECO-skýrslunni, til að mynda í sambandi við hættuna sem fylgir því að einn og sami dómari geti sinnt svo til öllum dómsmálum á tilteknu svæði á Íslandi um margra ára skeið, um skort á opinberum siðareglum fyrir dómara og um vöntun þess að dómarar hljóti skilvirka þjálfun og kennslu í siðferði, heiðarleika og því að greina og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfi.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að meiri umræða hefði þurft að fara fram um möguleika þess að reka mál á tveimur dómstigum í þriggja dómstiga kerfi, þ.e. um fyrirkomulag þess að mál geti farið nokkurs konar hjáleið milli héraðsdóms og Hæstaréttar án viðkomu í Landsrétti og hugmyndir um að tiltekin mál verði fyrst tekin fyrir í Landsrétti án viðkomu í héraði. En þessar hugmyndir eru að mínu mati þess verðar að þær séu metnar og skoðaðar nánar.

Engu að síður tel ég nauðsynlegt að gera þær úrbætur sem hér er verið að leggja til á núverandi dómskerfi þannig að hægt sé að ná fram þeim markmiðum sem ég nefndi í upphafi, eins og milliliðalausri sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi og að Hæstiréttur fái skýrar afmarkað hlutverk sem fordæmisgefandi og æðsti dómstóll réttarríkisins. Ég leggst þess vegna ekki gegn frumvarpinu og er með nefndinni á nefndarálitinu sem hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar hefur rakið og tek undir þau sjónarmið sem þar eru reifuð. Ég er sátt við þær breytingartillögur sem liggja fyrir á þskj. 1316, en geri auk þess aðra breytingartillögu á þskj. 1326, annars vegar um það sem ég nefndi áðan, að það þurfi aukinn meiri hluta á Alþingi til að víkja frá tillögum hæfnisnefndar um val á dómara, ef ráðherra ætlar að gera það, og síðan að í stað orðsins „dómstólasýsla“ komi orðið „dómsýsla“ í viðeigandi beygingarfalli. Mér heyrist á viðbrögðum þingmanna hér að sú breyting mælist vel fyrir, enda er það mun þjálla orð og kannski betur lýsandi.

Ég vona að málið verði tekið inn milli 2. og 3. umr. og að hægt sé að taka þessar breytingartillögur inn í þeirri von að nefndin geti sameinast um þær allar. Að því sögðu er ég sem sagt sátt við málið að öðru leyti, með þeim fyrirvörum sem hér hafa verið raktir.