145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

dómstólar.

615. mál
[15:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég kem upp til að lýsa því yfir, svona í meginatriðum, að ég er á nefndaráliti, eina nefndarálitinu sem gefið hefur verið út, það er ekki meiri hluti eða minni hluti. En ég er með fyrirvara sem lýtur að umgjörð þess hvernig dómarar eru skipaðir. Ég er sammála breytingartillögu sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir hefur lagt fram og er á henni, um að ef ráðherra ætlar sjálfur að taka ákvörðun um að skipa dómara í ákveðinni óþökk við fagnefnd þurfi 2/3 alþingismanna til að samþykkja það.

Þetta er auðvitað stórt og mikið mál og manni verður aðeins orða vant gagnvart þessu. Þetta varðar dómstólana, mjög mikil og stór grundvallarbreyting á umgjörð dómstólanna. Maður finnur svolítið mikið til þess að vera auðvitað ekki sérfræðingur á þessu sviði. Svo er búið að undirbúa þetta mál í tíu ár og alls konar aðilar hafa komið að því og vandað sig mjög mikið þannig að maður er svolítið feiminn við að gagnrýna það á einhvern skeleggan hátt.

Það var eitt og annað sem kom upp í umfjöllun nefndarinnar sem var mjög áhugavert. Stórar spurningar og minni spurningar sem vöknuðu. Er til dæmis hægt að skipa í hvelli 15 dómara á Íslandi? Ég hef ekkert svar við því. Margir lýstu efasemdum um það og töldu að kannski þyrfti að fara hægar í sakirnar. En við í nefndinni ákváðum að gera ekki neinar breytingar á því. Þetta verður að koma í ljós. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn. Það komu upp spurningar eins og um réttindi og skyldur dómara, hvort dómarar mættu gegna öðrum störfum en dómarastörfum. Við fengum athugasemdir við þetta frá dómurum en nefndin ákvað að gera ekki breytingar. Ég er sammála því. Þetta er það mikilvægt starf að mér finnst að dómarar eigi bara að sinna því en ekki öðrum störfum.

Nú erum við að taka upp þriðja dómstigið en eftir sem áður er vilji til þess og verður möguleiki á því að höfða mál á tveimur dómstigum. Ýmislegt var rætt um það. Hvernig á að fara með þann möguleika? Hvernig fer það fram allt saman? Ég held að varðandi mörg þessi álitaefni verði tíminn að leiða það í ljós og færa okkur einhverja reynslu. Við verðum að vera óhrædd við það í framtíðinni að gera breytingar til bóta þó svo að sannfæringin segi okkur núna að þetta eigi að vera með þessum hætti.

Ég styð þetta mál og við í Bjartri framtíð styðjum þetta mál. En undir niðri, við umfjöllun málsins, vöknuðu óneitanlega í huga manns stórar spurningar. Þetta varðar dómskerfið og það er hornsteinn opins lýðræðisríkis. Það er algert grunnatriði í því að tryggja velferðarsamfélag að dómstólar virki vel. Það veldur mér áhyggjum að við umfjöllun nefndarinnar gat maður ekki horft fram hjá því að við gestakomurnar gaus hvað eftir annað upp mikið óþol gagnvart dómstólum. Fólk er ekki ánægt með dómstólana. Að hluta til er það náttúrlega af augljósum ástæðum, að stórum hluta til held ég. Það hefur verið mikið álag á dómstólunum undanfarin ár og mikill málafjöldi. Óheyrilegur málafjöldi t.d. fyrir Hæstarétti. Eitt mál á dag, eins og kom fram í umfjöllun nefndarinnar. Auðvitað hlýtur eitthvað undan að láta og það birtist í því að mjög margir verða óánægðir með þá meðhöndlun. Borgararnir verða óánægðir með þá meðhöndlun sem þeir fá fyrir dómstólum. Óánægðir með dómana. Kannski er aldrei gott í lýðræðisríki og réttarkerfi að deila mikið um úrskurð dómaranna en fólk hefur ýmislegt út á efnisumfjöllunina að setja, samkvæmni í rökstuðningi, það hvort dómarar hafi kynnt sér gögn og þar fram eftir götunum. Fólk hefur stórar grundvallarspurningar varðandi skipan dómara og þar bíð ég, og sjálfsagt fleiri þingmenn, spenntur eftir boðuðu frumvarpi um það mál sérstaklega. En því er haldið fram að dómarar í landinu séu lokuð klíka og erfitt sé að sýna þeim aðhald, erfitt að gagnrýna þá. Þeir hlusti ekki og séu í rauninni orðnir einhvers konar kóngar í þessu ríki. Svoleiðis gagnrýni kemur fram. Við verðum að leggja við hlustir. Þetta er auðvitað alvarlegt.

Þá verður maður að horfa líka á það að frumvarpið tekur ekki beint á þeim grundvallaratriðum en það er boðað frumvarp um skipan dómara. Það þarf að fara vandlega í það, m.a. út af þessu óþoli. En þetta frumvarp er líka til bóta hvað það varðar. Þarna eru þrjú dómstig. Það léttir af álagi. Það á að ráða 15 nýja dómara á nýja dómstigið. Það léttir álagi af Hæstarétti og leiðir þar með, vonandi, til betri málsmeðferðar. Það á að styrkja stjórnsýslu dómstólanna. Það verður vonandi líka til að mæta þessari gagnrýni. Þó svo að maður deili því óþoli sem kom upp við umfjöllun nefndarinnar og er held ég í samfélaginu, að mörgu leyti af augljósum ástæðum, þá kemst maður líka að þeirri niðurstöðu að ef vel tekst til og ef fjármögnun er góð og vel verður að framkvæmd laganna staðið, þegar frumvarpið verður að lögum, vonandi, er það til bóta. Það verður vonandi til þess að bæta dómstólana.

Svo vakna spurningar eins og um skipan dómara. Það er í fyrsta lagi rík ástæða til að taka undir áralanga beiðni og gagnrýni umboðsmanns Alþingis varðandi það að hann hafi ekki neitt með stjórnsýslu dómstólanna að segja. Vonandi verður því breytt í væntanlegu frumvarpi forsætisnefndar. En það er líka bara þetta atriði: Dómarar eru æviráðnir. Það er ekki hægt að reka þá. Röksemdin fyrir því er að þeir eiga að vera sjálfstæðir í sínum störfum. En það storkar heilbrigðri skynsemi á ákveðinn hátt að annars staðar í samfélaginu er fyrirkomulagið ekki þannig. Tökum sem dæmi umboðsmann Alþingis sem líka á að vera hlutlaus og faglegur og sjálfstæður í störfum sínum; hann er ekki æviráðinn. Það er hægt að reka hann. Hann nýtur þess aðhalds að hann getur misst starfið sitt. Alþingi kýs hann ekki aftur sem umboðsmann ef hann er ekki talinn standa sig á einhvern hátt. Svona höfum við líka breytt heilbrigðiskerfinu. Læknar verða nú aldeilis að vera faglegir og hlutlausir og standa sig í starfi en þeir eru ekki svona ósnertanlegir eins og dómarar. Og auðvitað er ekkert tekið á því í frumvarpinu og engin ástæða til. Hins vegar held ég að þetta þurfi að ræða og velta fyrir sér, m.a. af því að þessi sjónarmið komu mjög sterkt fram fyrir nefndinni að þetta sé orðin einhvers konar lokuð klíka sem er erfitt að gagnrýna, erfitt að sýna aðhald. Menn upplifa það að dómar séu illa skrifaðir, illa rökstuddir, ekki samkvæmni í þeim. Þá verðum við aðeins að velta því fyrir okkur, það væri næsta skref, hvernig dómarar eru skipaðir og hvort þetta sé rétt fyrirkomulag.

Svo er líka annað sem var ekkert rætt nema mjög stuttlega við umfjöllun nefndarinnar. Málskostnaður er orðinn óheyrilega hár fyrir borgarana. Við segjum að allir séu jafnir fyrir lögunum. Allir eigi rétt á réttlátri málsmeðferð og dómum og úrskurðum í málum sínum en ég held að kostnaðurinn sé orðin aðkallandi spurning og ég ætla að skilja hana eftir í loftinu í lok ræðu minnar. Þegar við rekjum það hvað það kostar fyrir borgara að fara í mál eða verja sig fyrir rétti er það mjög aðkallandi spurning hvort allir séu jafnir fyrir lögunum. En það er umræða sem við tökum vonandi af meiri dýpt síðar.