145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér erum við nú ekki að fjalla um neina dægurflugu. Hér er verið að púkka undir einn af hornsteinum Alþingis. Rannsóknarnefndirnar sem hér eru til umræðu eru mjög mikilvægur og vaxandi þáttur í því sem kalla mætti innbyrðis valdtemprun valdþáttanna í stjórnskipan okkar. Ég mun fara betur yfir frumvarpið í stuttri ræðu á eftir.

En það sem mig langar til þess að drepa á er ályktun Alþingis frá 7. nóvember 2012. Hv. þingmaður sneri lítillega fingri að henni í álitinu hér áðan sem hann flutti framsögu fyrir. Þar nefndi hann að beðið hefði verið eftir afgreiðslu þessa frumvarps áður en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tæki hana til umfjöllunar. Nú er það svo að tillögur um rannsóknarnefndir koma oft fram þegar hitamál eru uppi og öldur rísa. Þær eldast ekki allar vel. Sú tillaga sem við samþykktum í nóvember 2012 hefur ekki elst vel. Það eru margir þættir í henni sem komið hafa fram, sem ekki er hægt að rannsaka, og suma einfaldlega er búið að skrifa skýrslur um. Eftir sem áður eru þættir í þeirri tillögu sem ég tel að taka þurfi á og Alþingi þarf líka með einhverjum hætti að svara því kalli sem þar kemur fram eða þá nema hana úr gildi.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann af því að hann er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar: Hvernig hyggst hann í framhaldi af fyrirsjáanlegri samþykkt þessa frumvarps beita sér innan nefndarinnar? Hvað má gera ráð fyrir að nefndin geri til þess að uppfylla 14. gr., sem er ákvæði til bráðabirgða sem fjallar einmitt um að það verði verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að leggja til hvernig ályktuninni frá 2012 verður framfylgt?