145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um vinnubrögðin í þessu máli hefur ríkt mjög víðtæk samstaða í þinginu. Menn vildu láta þingsályktunina frá því í nóvember 2012 bíða af nákvæmlega þeim ástæðum sem hv. þingmaður vísaði til. Hún er víðfeðm, það rúmast margt undir regnhlíf hennar og við biðum þess að fá lagaramma sem heimilaði okkur að afmarka viðfangsefnið frekar. Sá lagarammi er að verða til núna.

Nú höfum við fengið ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um að tiltekinn þáttur, sem vikið er að í samþykktinni frá því í nóvember 2012, þarfnist frekari skoðunar, að líklegt sé að skoðun á þeim þætti muni leiða nýjar upplýsingar fram í dagsljósið.

Nú bíður það okkar að fara yfir aðra þætti þessarar ályktunar frá því haustið 2012, að skoða þær rannsóknarskýrslur sem gerðar hafa verið, bæði í rannsóknarnefnd sem vann fyrir Alþingi og síðan rannsóknarnefnd Alþingis sjálfs, og athuga hvort eitthvað standi enn út af, eða hvort rannsókn á einhverjum öðrum þáttum sé líkleg til að leiða nýja þætti fram í dagsljósið. Ef svo er ekki, ef við sannfærumst um að svo sé ekki, látum við staðar numið. Ef við sannfærumst hins vegar um að enn séu þættir og spurningar sem sé ósvarað og líklegt að frekari rannsókn muni leiða svörin fram í dagsljósið, munum við að sjálfsögðu gera tillögur um slíkt til Alþingis. Það er viðfangsefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis núna að komast að samkomulagi um tillögur til Alþingis sem rúma þá hugsun.