145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ef við skoðum aðkomu Alþingis að þessum málum, hruninu, því sem gerðist í aðdraganda þess og eftirmála, þá sé almennur og einlægur vilji fyrir því í þinginu að leiða sannleikann fram í dagsljósið. Við höfum verið að skoða með hvaða hætti það verði gert með sem markvissustum hætti. Það er ánægjuefni að forsætisnefnd skuli hafa skilað inn í þingið frumvarpi sem þverpólitískur einhugur er um í forsætisnefnd, og síðan höfum við fjallað um málin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á sömu forsendum. Ég held að enginn leggist gegn því að við leiðum fram í dagsljósið það sem talið er að enn sé ósvarað. Það kunna að vera uppi þau sjónarmið að menn vilji ganga lengra og kanna aðra þætti og þá á síðari stigum í eftirmála hrunsins. Það er þá nokkuð sem við tökum til umræðu síðar. En nú erum við að stíga markvisst skref til þess að hrinda í framkvæmd þingsályktun eða samþykkt þingsins sem hefur vissulega legið lengi á okkar borðum, ég tek undir það með hv. þingmanni, en meira máli skiptir þó að við gerum það á vandaðan og yfirvegaðan hátt og á þann hátt sem líklegur er til að skila okkur þeim árangri sem við getum vænst.