145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það mjög skýrt fram að ég er í megindráttum alveg sammála því sem fram kom í málflutningi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, bæði varðandi túlkun á 1. gr. frumvarpsins, um að alla jafna skuli stefnt að því að mál sem koma fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og eru ættuð úr þessum sal, skuli afgreiðast hér, en það skal engu að síður gerast að uppfylltum tilteknum skilyrðum og fram hjá þeim getum við ekki horft.

Varðandi hinn þáttinn vil ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Mér finnst sjálfum þetta eiginlega vera tvíþætt: Annars vegar erum við að tala um refsivert athæfi sem er skotið til réttarkerfisins; hins vegar erum við að tala um brot eða hugsanlegt brot á starfsskyldum opinbers starfsmanns. Þá finnst mér alveg tvímælalaust, og ég hefði viljað herða á því í lögunum í reynd eftir að hv. þingmaður er búinn að benda á þetta, að viðkomandi hljóti að hafa andmælarétt. Reyndar er það að finna í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að þeir eiga rétt á því þar að hafa í frammi andmæli ef þeir eru taldir hafa gerst brotlegir í starfi. Mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson því hafa bent á mjög mikilvægt atriði sem mér finnst nauðsynlegt að skoða nánar en þetta er afdráttarlaust mín afstaða í þessu máli.