145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 252/2015 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

683. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 252/2015, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun.

Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið til umræðu um málið Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneytinu og Eggert Ólafsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Eins og fram kemur í tillögunni er með henni leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á II. viðauka sem fjallar um framleiðslu á spírum. Um þetta hefur áður verið fjallað hér en nú hefur málið tekið ákveðnum breytingum sem ég ætla að gera grein fyrir í örstuttu máli. (Gripið fram í: Ítarlega.) Ítarlega, óskar hv. þingmaður eftir. Ég geri það eins ítarlega og gert er ráð fyrir í nefndarálitinu en veit að sagan um þetta mál er nokkuð löng þannig að hv. þingmenn geta sjálfsagt leitað sér viðbótarupplýsinga sé þess þörf.

Með reglugerðinni eru settar kröfur um að spíruframleiðendur þurfi starfsleyfi áður en þeir hefja starfsemi og til að öðlast slíkt starfsleyfi þurfi þeir að uppfylla ákveðnar kröfur sem tilteknar eru í reglugerðinni. Kröfurnar varða einna helst hönnun og skipulag starfsstöðva sem þarf að vera þannig að koma megi við vörnum gegn mengun milli vinnslustiga eða meðan vinnsla stendur yfir. Gerð er krafa um að auðvelt sé að þrífa starfsstöðvar og allan búnað og að fullnægjandi aðstaða sé til þrifa og sótthreinsunar og um áhöld, geymslur o.s.frv. Áður en starfsleyfi er veitt skal fara fram úttekt á starfsstöðvum og gengið úr skugga um að kröfur séu uppfylltar.

Eins og ég sagði hefur málið verið til nokkurrar umfjöllunar áður í nefndinni en einnig kom fram að kostnaður vegna umræddra leyfisúttekta fellur á framleiðendur, en fyrir nefndinni kom fram í máli þeirra sem fóru yfir málið með okkur frá ráðuneytunum að ekki væri um háan kostnað að ræða og að unnið yrði í samræmi við fyrri tilmæli hennar um að útgáfa starfsleyfa yrði ekki óþarflega íþyngjandi fyrir framleiðendur. Tilmælunum var beint til utanríkisráðuneytisins eftir umfjöllun nefndarinnar um upptöku reglugerðarinnar um þinglega meðferð EES-mála, samanber 2. gr. þeirra reglna.

Reglugerðin er til komin vegna þess að upp komu nokkur kólígerlasmit í Evrópu í maí 2011. Smitið var rakið til spíra og þess vegna var ákveðið að fara í ákveðna umgjörð vegna þeirra reglna sem gilda um slíka starfsemi. Reglugerðin er því sett til að tryggja matvælaöryggi og til verndar heilbrigði almennings.

Gera þarf breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, til að innleiða reglugerðina þar sem ekki er kveðið á um það í gildandi lögum að starfsleyfi þurfi fyrir framleiðslustöð spíra. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að gert sé ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum á yfirstandandi þingi.

Nefndin leggur til að málið verði samþykkt óbreytt. Hv. þingmaður Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Óttarr Proppé voru einnig fjarverandi en rita undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir álitið rita, ásamt þeirri sem hér stendur, hv. þingmenn Karl Garðarsson, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Óttarr Proppé, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson.