145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera ríkisfjármál að umræðuefni í dag. Sá stöðugleiki sem þessi ríkisstjórn hefur lagt grunninn að er mikilvægur og verðmætur fyrir vöxt og viðgang þjóðarinnar til framtíðar. Hins vegar langar mig til að ræða stuttlega þann skýra vilja sem hefur komið fram á Alþingi um að sporna við starfsemi skattaskjóla.

Nýjustu fréttir af rekstri ríkissjóðs eru einmitt í þá jákvæðu veru. Heildarútgjöld ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi þessa árs voru innan fjárheimilda og meiri hluti fjárlagaliða er innan fjárheimilda á fyrstu þremur mánuðum ársins. Ef á heildina er litið er útlitið því mjög gott en hins vegar eru 135 fjárlagaliðir með útgjöld umfram fjárheimildir, samtals 4,1 milljarður kr., sem er auðvitað áhyggjuefni. Útkoman er samt sem áður á áætlun og ánægjuefni að samtals eru 217 fjárlagaliðir með útgjöld innan fjárheimilda.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi er ánægjulegt að sjá að í skýrslu um skattaskjól og mögulegar lagabreytingar til að sporna við starfsemi þeirra sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur sent frá sér segir nefndin að hún telji nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til fjölþættra aðgerða gegn starfsemi skattaskjóla.

Áframhaldandi virk þátttaka í alþjóðlegu samstarfi er mikilvæg og Ísland þarf að vera í fremstu röð, en auk þess þarf að nýta tækifæri sem kunna að felast í lagabreytingum til að girða fyrir að íslenskir aðilar nýti sér skattaskjól og þá leynd sem þau bjóða.

Nýlegar upplýsingar um eignir Íslendinga í skattaskjólum og möguleg undanskot frá skatti kalla á tafarlaus viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda, segir nefndin, sem eru einmitt í undirbúningi núna í fjármálaráðuneytinu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna