145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að ræða undir þessum lið framgang ríkisstjórnarinnar í ýmsum málum, sérstaklega þegar kemur að málefnum ferðamanna. Nú stefnir í eitt mesta ferðamannasumar sögunnar og ég hef miklar áhyggjur af því hvernig til hefur tekist í tíð núverandi ríkisstjórnar að undirbúa það.

Ég átti smáhlé frá þingstörfum í gærmorgun og renndi við á Þingvelli þar sem ég er í Þingvallanefnd til þess að skoða nýlegt dæmi þar um gjaldtöku af ferðamönnum. Það er skemmst frá því að segja að bílastæðin við Hakið eru sprungin og það var löng biðröð við stöðumælinn þar sem menn greiða fyrir að leggja.

Nú er gríðarlegur straumur á mjög marga ferðamannastaði, sem er jákvætt út af fyrir sig, en þeir eru því miður ekki í stakk búnir til þess að taka á móti þessum mikla straumi. Samgöngukerfi landsins liggur undir skemmdum. Sameiginlegar eignir okkar landsmanna í þeim infrastrúktúr eru að rýrna. Eignir okkar eru að rýrna á uppgangstímum vegna þess að ríkisstjórn Íslands hefur látið lausatök og kæruleysi vera einkennisorð allrar sinnar stjórnartíðar. Það eru lausatök á öllum sviðum hins íslenska stjórnkerfis.

Það er auðvitað það sem er að birtast okkur í því að við erum algjörlega óundirbúin til þess að taka því sem við blasir. Þetta hefur verið gagnrýnt á hverju einasta ári, hverju einasta þingi kjörtímabilsins og spurt um svör, spurt um efndir, spurt um hvað menn ætla að gera. En svarið er ekkert.

Ekkert bólar á neinni lendingu, neinum lausnum frá hinni svokölluðu Stjórnstöð ferðamála sem átti að bjarga öllu. Nema einu fréttirnar eru þær að framkvæmdastjóri sem er nýtekinn við er hættur og leit stendur yfir að nýjum. Og stærsta ferðasumar lýðveldissögunnar er fram undan.


Efnisorð er vísa í ræðuna